Hreyfing á jarðskorpunni undir Fimmvörðuhálsi

Fimmvörðuháls úr lofti.
Fimmvörðuháls úr lofti. mbl.is/Jónas Erlendsson

FREYSTEINN Sigmundsson forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar, telur mjög brýnt að fylgst verði vel með bæði Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli eftir að mælingar leiddu í ljós hreyfingu á jarðskorpunni undir Fimmvörðuhálsi. Freysteinn sagði að sl. laugardag hafi menn á vegum Norrænu eldfjallastöðvarinnar endurtekið hallamælingar frá því í júlí sl. á ákveðnum punktum á stuttri mælingarlínu á Fimmvörðuhálsi. "Þær mælingar sýna að það hefur orðið höggun á landinu frá því í júlí í sumar," sagði hann. "Þessi höggun stafar af kvikuhreyfingum annaðhvort undir Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli en Fimmvörðuháls er mitt á milli jöklanna."

Afgerandi breytingar

 Sagði hann að mælingin sl. laugardag sýndi afgerandi breytingar. "Við höfum verið að endurtaka mælingar á fleiri stöðum við Mýrdalsjökul en þetta er fyrsta afgerandi breytingin, sem við sjáum," sagði Freysteinn. "Þessi hallabreyting sem mælist nú er mjög áþekk þeirri sem varð árið 1994 á Fimmvörðuhálsi og við vitum að sú hreyfing stafaði af kvikuinnskoti undir Eyjafjallajökul. Því tel ég mjög brýnt að fylgjast vel með Eyjafjallajökli líkt og Mýrdalsjökli."

Kvikuhreyfing

 Freysteinn sagði að breytingarnar gætu þó einnig stafað af landsigi undir vestanverðum Mýrdalsjökli og því ekki alveg ljóst hvaða þýðingu þessar breytingar hefðu en að þarna væri örugglega um kvikuhreyfingu að ræða og full ástæða til að gæta fyllstu aðgæslu og fylgjast vel með jöklunum.  Tvisvar hefur gosið úr Eyjafjallajökli á sögulegum tíma og hófst síðasta gos árið 1821 og skömmu síðar eða árið 1823 varð eldgos í Kötlu. "Þannig að virkni var í báðum eldstöðvunum á svipuðum tíma," sagði Freysteinn. Talsvert gjóskufall var í næsta nágrenni Eyjafjallajökuls árið 1821 en auk gjóskunnar má búast við að hlaup geti komið undan Gígjökli og Steinsholtsjökli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert