Þingmenn úr öllum þingflokkum nema Samfylkingunni hafa lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki en meðflutningsmenn eru Árni Steinar Jóhannsson, VG, Guðjón A. Kristjánsson Frjálslynda flokknum og Ólafur Örn Haraldsson Framsóknarflokki.
Í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott ákvæði í lögum þar sem kveðið er á um undanþágur forseta Íslands og maka hans frá greiðslu skatta og opinberra gjalda. Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. ágúst 2000 þar sem í 6. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er kveðið á um að kjörtímabil forseta Íslands hefjist 1. ágúst og endi 31. júlí að fjórum árum liðnum. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í dag, en sérstakt afbrigði þarf til að fá það á dagskrá þessa þings vegna þess að það var ekki komið fram fyrir 1. maí.