Kynjamisrétti í vísindasamfélaginu

Þótt mikið hafi miðað í jafnréttismálum á undanförnum áratugum reynist konum þó enn ótrúlega torsótt að ná frama á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Múrarnir eru víða og oft þar sem síst mætti ætla að óreyndu. Í Morgunblaðinu á sunnudag var viðtal við Agnesi Vold, sérfræðing í ónæmisfræði við Gautaborgarháskóla, sem hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð og víðar vegna rannsókna sinna á matsferli Rannsóknarsjóðs heilbrigðisvísinda í Svíþjóð, sem leiddu í ljós að þrisvar sinnum auðveldara var fyrir karl en konu að fá vísindastöðu hjá rannsóknarsjóðnum.

Vold vann rannsókn sína ásamt Christine Wennerås og í viðtalinu lýsir hún því hvernig reynt hafi verið að leggja steina í götu þeirra meðan á rannsókninni stóð. Þær birtu sínar fyrstu niðurstöður árið 1995 og fylgdu þeim síðan eftir með frekari rannsóknum og grein, sem birtist í tímaritinu Nature tveimur árum síðar undir heitinu "Kunningjatengsl og kynjamismunun í jafningjamati vísindasamfélagsins". Eins og segir í viðtalinu komust þær þar að þeirri niðurstöðu að kvenumsækjendum væri kerfisbundið mismunað hjá sjóðnum. Konur þyrftu að leggja fram 2,5 sinnum fleiri greinar eða rannsóknir en karlumsækjendur til að fá sambærilegt mat fyrir vísindalega hæfni og að meðaltali væri 50% erfiðara fyrir konur en karla að fá fyrsta styrkinn.

Vold og Wennerås eru í sérfræðingahópi Evrópusambandsins um konur og vísindi. Í skýrslu hópsins frá árinu 2000 kemur fram að konur standi verr að vígi í vísindum en karlar í ríkjum Evrópusambandsins. Hún segir að völd kvenna í vísindasamfélaginu séu ekki í neinu samhengi við þann fjölda, sem vinnur að rannsóknum, og þetta valdaleysi hafi í för með sér að þær hafi lítil áhrif á það hvað er rannsakað með þeim afleiðingum að samfélögin fari á mis við þá möguleika, sem liggi í hugmyndum þeirra. Vold telur að vísindasamfélagið muni ekki breytast innan frá og því verði breytingin að koma frá almenningi, stjórnmálamönnum og þeim, sem eru í áhrifastöðum.

Það væri hæpið að ætla að hið íslenska vísindasamfélag væri mjög frábrugðið því, sem gerist í kringum okkur. Innan Háskóla Íslands er starfandi jafnréttisnefnd. Samkvæmt erindisbréfi hennar frá 1997 er hlutverk hennar að afla upplýsinga um stöðu jafnréttismála innan Háskólans, gera tillögur um jafnréttisstefnu, efna til umræðu og fræðslu um jafnréttismál innan Háskólans og veita ráð og umsögn í jafnréttismálum. Nefndin hefur gert jafnréttisáætlun, sem tekur til fjögurra ára og var samþykkt í Háskólaráði haustið 2000. Í áætluninni segir: "Stefnt er að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt allri starfsemi háskólasamfélagsins. Það þýðir að jafnrétti kynjanna verði haft í huga við alla stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð."

Í úttekt í Morgunblaðinu á liðnu hausti um jafnréttisnefndina segir að könnun Félagsvísindastofnunar á starfsaðstæðum starfsmanna Háskólans árið 1996 og úttekt Þorgerðar Einarsdóttur, lektors í kynjafræði, á vinnumatskerfi háskólamanna sýni að menntun skili konum ekki jafn háum stöðum og körlum og að þær sitji í lægri stöðugildum meðan jafnvel minna menntaðir karlar færist upp virðingarstigann. Konur virðist því lengur að vinna sig upp innan háskólasamfélagsins og jafnt hlutfall kynjanna í námi hafi enn sem komið er ekki skilað konum upp á æðri stig kennslu eða rannsókna.

Betri mælikvarði en verðleikar er vandfundinn. Ekkert samfélag græðir á því að taka sýknt og heilagt klíku fram yfir verðleika. Ef einhvers staðar mætti ætla að verðleikasjónarmið væri innbyggt er það í vísindasamfélaginu. Því miður er því ekki að heilsa og á meðan ekki verður breyting þar á tapa ekki aðeins fræðin, heldur fer samfélagið allt á mis við krafta þeirra kvenna, sem gengið er framhjá í nafni mismununar og ójafnréttis.

Verðlækkanir

Eins og búast mátti við hafa fleiri verzlunarkeðjur fylgt fordæmi Byko frá því á laugardag og lækkað verð hjá sér. Þannig tilkynnti Húsasmiðjan, að fyrirtækið mundi lækka verð um 3%, og í gær gengu forráðamenn Fjarðarkaups í Hafnarfirði fram fyrir skjöldu og lýstu því yfir, að þeir mundu lækka vöruverð um 3%.

Í gærkvöldi höfðu ekki fengizt skýr svör hjá stóru matvörukeðjunum tveimur, Baugi og Kaupási, um viðbrögð þessara aðila. Talsmenn Bónusverzlana, sem eru starfræktar á vegum Baugs, lýstu því yfir, að þeir mundu áfram bjóða lægsta vöruverð og talsmenn Hagkaups, sem er einnig innan Baugs, sögðu að þeir mundu fjölga tilboðum í verzlunum sínum.

Búast má við að neytendum þyki þetta ekki viðunandi svör hjá stóru keðjunum tveimur. Að minnsta kosti er ljóst, að með 3% verðlækkun á öllum vörutegundum hafa Fjarðarkaup skapað sér mjög sterka samkeppnisstöðu.

Sú hreyfing til verðlækkunar, sem Byko kom af stað með tilkynningu um 2% lækkun á öllum vörum og skuldbindingu um að hækka vöruverð ekki fram til 1. maí, hefur nú þegar haft gífurleg áhrif á afstöðu almennings til verðlagsmála. Gera má ráð fyrir, að þrýstingur almenningsálits á aðrar verzlanir að fylgja í kjölfarið muni aukast mjög á næstu dögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka