Heimatilbúin páskaegg eru skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum páskaeggjum sælgætisframleiðendanna. Margir njóta þess því að gefa sköpunargleðinni lausan tauminn fyrir páskana með því að búa til sín eigin egg, en formin má til að mynda fá í versluninni Pipar og salt. Davor Purusic skrifstofumaður hefur á undanförnum árum átt það til að búa til páskaegg fyrir dætur sínar og nánustu fjölskyldu. Hann segir eggin óneitanlega hafa vakið lukku hjá ættingjunum. Dæturnar, Valgerður Marija og Halldóra Ana sem eru þriggja og fimm ára gamlar, hafi hins vegar verið fullungar til að meta þau í fyrstu þótt þær sýni páskaeggjagerðinni mikinn áhuga núna.
"Það er auðvelt að búa til eggin," segir Davor og kveður vandasamasta hluta verksins vera að líma eggjahlutana saman. Þar verði að gæta þess að súkkulaðibráðin sé alls ekki of heit þar sem þá sé hætta á að eggjahlutarnir bráðni. Hann segir heimatilbúnu eggin vera bragðgóð og bjóða upp á margvíslega möguleika, til að mynda sé hægt að nota mismunandi bragðtegundir af súkkulaði við gerð þeirra. "Það góða við þessi egg er síðan líka að maður ræður með hverju þau eru fyllt og það er vissulega kostur að vera ekki bundinn af hefðbundnu sælgætisinnihaldi páskaeggja." Í heimatilbúnu páskaeggjunum má þá fela lítil leikföng eða aðra smámuni og sjálfur hefur Davor auk þess stundum sett fígúrur ofan á eggin til að þau líkist meira hefðbundnum eggjum. Páskaeggin má skreyta að vild, en að sögn Davors eru þau mun ódýrari en keypt egg, kostnaðinn telur hann nema um 300 kr. fyrir hvert egg. Páskaegg 150-200 g rjómasúkkulaði