Heimatilbúin páskaegg eru skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum páskaeggjum sælgætisframleiðendanna. Margir njóta þess því að gefa sköpunargleðinni lausan tauminn fyrir páskana með því að búa til sín eigin egg, en formin má til að mynda fá í versluninni Pipar og salt. Davor Purusic skrifstofumaður hefur á undanförnum árum átt það til að búa til páskaegg fyrir dætur sínar og nánustu fjölskyldu. Hann segir eggin óneitanlega hafa vakið lukku hjá ættingjunum. Dæturnar, Valgerður Marija og Halldóra Ana sem eru þriggja og fimm ára gamlar, hafi hins vegar verið fullungar til að meta þau í fyrstu þótt þær sýni páskaeggjagerðinni mikinn áhuga núna.