Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingar, segir að hún hafi ekki verið að saka ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra um að hafa haft önnur sjónarmið en fagleg að leiðarljósi, í ræðu sem hún flutti á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi á sunnudag. Þar sagði hún að leiða mætti að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins væru ein aðal meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs.
"Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum?" sagði Ingibjörg Sólrún í ræðunni.
Í 132. gr. almennra hegningarlaga segir að gæti opinber starfsmaður ekki "af ásetningi eða stórfelldu gáleysi réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, leit, fangelsan, framkvæmd refsingar eða haldsetningu, eða brýtur aðrar þess konar reglur" þá skuli hann sæta sektum eða fangelsi, allt að einu ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum. Er opinber starfsmaður skilgreindur sem handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti eða dómari eða annar opinber starfsmaður sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins.
Lögfróður maður sem blaðið leitaði álits hjá taldi að embætti ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra falli undir þessa skilgreiningu.
Ingibjörg Sólrún sagði að í ræðu sinni hefði hún ekki verið að saka embættismenn um lögbrot.
"Það sem ég var að tala um í ræðu minni er þessi skortur á trausti sem er orðinn í íslensku samfélagi. Fólk treystir ekki stofnunum samfélagsins, það treystir ekki stjórnmálamönnum, það treystir ekki ríkisstjórn, ráðherrum, það treystir ekki lögreglu, kirkju, fjölmiðlum. Það er almennur skortur á trausti á stofnunum. Ég færði rök fyrir því að það mætti m.a. rekja til þess að það væri búið að skapa þannig andrúmsloft í samfélaginu m.a. vegna pólitískra afskipta af ýmsum toga. Þegar gripið er til einhverra aðgerða, burtséð frá því hverjar þær eru, þá vakna þær spurningar hjá fólki hvort þessar aðgerðir séu af faglegum og málefnalegum toga eða hugsanlega einhverjum öðrum. Það þarf ekki að vera með réttu sem þær röksemdir eða grunsemdir vakna hjá fólki, þær þurfa ekki endilega að eiga sér stoð í raunveruleikanum, en andrúmsloftið í samfélaginu er orðið þannig að þessi umræða kemur upp og menn geta ekki horft fram hjá því," segir Ingibjörg.
Þú sagðir að þessum fyrirtækjum hefði komið illa að forsætisráðherra væri þeim ekki hliðhollur.
"Ég var þar ekki að vísa til þessara rannsókna í sjálfu sér. Það kemur þeim bara illa að vera alltaf á milli tannanna á forsætisráðherra. Það endurspeglast auðvitað í hinni almennu umræðu í samfélaginu og endurómar m.a. í umfjöllun um íslenskt viðskiptalíf og fyrirtæki erlendis. Þetta kemur fram í greinum á erlendum vettvangi í Guardian, EuroMoney og fleiri stöðum, þar sem einmitt er talað um þesssa samtvinnun stjórnmála og viðskiptalífs á Íslandi. Það þarf ekki mig til að segja þetta. Það var viðtal í Morgunblaðinu í desember við Björgúlf Thor þar sem hann vísar til þess að hann hafi að mestu verið í Rússlandi síðustu tíu ár, það sé nú land sem ekki hafi orð á sér fyrir að markaðsöflin ráði ferðinni. Svo kom hann til Íslands og þá sjái hann að markaðsöflin séu ekki höfð í hávegum hér og hér sé það pólitíkin sem ráði."
Þú ert þá í raun ekki að saka þessa embættismenn um að hafa framið lögbrot?
"Nei, alls ekki. Þetta er algjörlega rifið úr samhengi við það sem ég sagði í minni ræðu."
Áttu við að embættismenn geti orðið fyrir áhrifum og reyni að þóknast stjórnvöldum þótt þeir fái ekki bein tilmæli um slíkt?
"Ég er ekkert að velta því fyrir mér og legg ekkert mat á það hvað þarna búi að baki. Ég geri ráð fyrir því að þessar stofnanir, eins og Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit, ríkislögreglustjóri og fleiri, séu að vinna á faglegum og málefnalegum grundvelli. Ég er að segja og hef séð mörg vitni um það að sú umræða er í samfélaginu og almannarómur er þannig að fólk telur sig ekki vera visst. Ég er að vísa til þess að þegar þessar rannsóknir koma upp fara af stað umræður um hvort þetta séu pólitísk afskipti eða málefnaleg og fagleg afskipti. Í raun ætti sú umræða ekki að þurfa að koma upp heldur ættum við öll að vera sannfærð um það þegar þessar stofnanir láta til skarar skríða séu þær bara að vinna sín verk og þær ættu ekki að þurfa að sæta slíkri umræðu. En þær gera það og það endurspeglar ákveðið andrúmsloft sem er í samfélaginu og sem stafar af þessum pólitísku afskiptum."
Telur þú að flokkspólitísk sjónarmið ráði ferðinni í þessum rannsóknum?
"Ég gef mér að þessar stofnanir sinni sínu eftirlitshlutverki á algjörlega málefnalegum og faglegum forsendum. Ég gef mér það."