Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum Jóns Ólafssonar á árunum 1996-2001 og á bókhaldi og skattskilum Jóns Ólafssonar & Co sf., hefur leitt í ljós þá niðurstöðu að vanframtaldar tekjur, eignir, söluhagnaður og hlunnindi, á því tímabili sem rannsóknin náði til, nemi samanlagt um 3,2 milljörðum kr.
Niðurstöður rannsóknarinnar, sem hófst 21. febrúar á seinasta ári, eru birtar í tveimur skýrslum embættisins og hafa lögmenn Jóns Ólafssonar afhent skattrannsóknarstjóra andmæli hans. Þar er niðurstöðum rannsóknarinnar harðlega mótmælt sem röngum og málsmeðferð embættisins er gagnrýnd.
Samhliða rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum Jóns Ólafssonar, gerði embættið sjálfstæða rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins Jóns Ólafssonar & Co. sf. fyrir rekstrarárin 1998 og 1999. Kemst embættið að þeirri niðurstöðu að söluverðmæti eignarhluta skattaðilans í Fjölmiðlun hf. til Inuit Enterprises Ltd., með aðsetur á Bresku Jómfrúreyjum, hafi numið að lágmarki rúmum 1,3 milljörðum króna og að vanframtalinn söluhagnaður hafi numið rúmlega 1,2 milljörðum kr.
Er því m.a. haldið fram að telja verði að Jón Ólafsson og Símon Á. Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi, hafi af ásetningi rangfært bókhald og skattframtal skattaðilans í tengslum við sölu á eignarhlut Jóns Ólafssonar & Co. í Fjölmiðlun hf. Er þessi meðferð á viðskiptunum í bókhaldi talin geta brotið gegn ákvæðum laga um bókhald, laga um ársreikninga og almennra hegningarlaga. Þá sýnist að sú háttsemi Jóns og Símonar að standa skil á röngum skattframtölum fyrir skattaðilann kunni að varða þá refsingu skv. 5. mgr., sbr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt og 262. gr. hegningarlaga.
Niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum Jóns Ólafssonar & Co. er einnig mótmælt sem rangri og órökstuddri í andsvörum við skýrsluna.
Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra að rannsókn á bókhaldi og skattskilum Norðurljósa samskiptafélags hf. og tengdra félaga hafi leitt í ljós, að vel á annan tug einstaklinga hafi þegið greiðslur vegna starfa sinna í þágu félaganna á árunum 1996-2001, án þess að gerð hafi verið grein fyrir þeim launagreiðslum sem slíkum í bókhaldi og launauppgjöf félaganna til skattayfirvalda.
Jón Ólafsson sendi frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem hann segist hafa heimilað lögmönnum sínum að afhenda Morgunblaðinu öll gögn varðandi skattamál sitt og JÓCÓ ehf. "enda hef ég ekkert að fela hvorki gagnvart íslenskum né enskum skattayfirvöldum, sem hafa úrskurðað mig sem enskan skattþegn frá árinu 1998 að telja. Með því að afhenda Morgunblaðinu öll gögn svo blaðamenn þar geti unnið úr þeim fréttir vonast ég til að sögusögnum um stórfelld skattsvik mín linni og ég fái notið þeirra mannréttinda á Íslandi að vera saklaus þar til sekt mín hefur verið sönnuð með þeim hætti sem lög kveða á um," segir í yfirlýsingunni.
Gagnasafn Morgunblaðsins: Skýrsla um Jón Ólafsson
Gagnasafn Morgunblaðsins: Andmæli Ragnars Aðalsteinssonar fyrir hönd Jóns Ólafssonar
Gagnasafn Morgunblaðsins: Skýrsla skattrannsóknarstjóra um Jón Ólafsson & Co
Gagnasafn Morgunblaðsins: Andsvör vegna Jóns Ólafssonar & Co