Á síðustu þremur vikum hafa tvær rörasprengjur verið sprengdar fyrir utan heimili tveggja kennara í Reykjanesbæ. Fram kemur á fréttavef Víkurfrétta að önnur sprengjan olli talsverðu eignartjóni. Tveir 16 ára unglingar eru grunaðir um verknaðinn.
Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Keflavík, staðfesti í samtali við Víkurfréttir að málið væri til rannsóknar og að það væri litið mjög alvarlegum augum, en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Blaðið segir að annar þeirra sem liggur undir grun haldi úti vefsíðu þar sem listi yfir skotmörk er birtur. Á vefsíðunni sé einnig að finna nákvæmar upplýsingar um gerð rörasprengja og uppskriftir að sprengiefni.