Ný íslensk rannsókn sýnir að lífslíkur fyrirbura hafa aukist hér úr 22% á árunum 1982-90 í 52% árin 1991-95 á sama tíma og hlutfallslega fleiri litlir fyrirburar fæðast í hverjum árgangi. Þá hefur hlutfall fyrirbura sem greindir hafa verið með fötlun ekki aukist marktækt milli tímabila þrátt fyrir að fleiri fyrirburar lifi.
Rannsókninni stýrðu Ingibjörg Georgsdóttir og Atli Dagbjartsson, sérfræðingar í barna- og nýburalækningum, en sagt er frá henni í nýjasta hefti Læknablaðsins. Þar kemur fram að hluti fyrirbura glími við langvinn og alvarleg heilsufarsvandamál og tilgangur rannsóknarinnar hafi verið að varpa ljósi á lífslíkur og fötlun fyrirbura.
Rannsóknin var gerð á tveimur tímabilum, fyrst árin 1982-90 og síðari hluti 1991-1995 og voru niðurstöðurnar síðan bornar saman. Á fyrra tímabilinu lifðu 19 af 87 lifandi fæddum börnum við fimm ára aldur. Af þeim voru þrjú börn fötluð eða 16%. Á seinna tímabilinu lifðu 35 af 67 lifandi fæddum börnum við fimm ára aldur en af þeim voru sex börn með fötlun eða 17%. Hlutfall fatlaðra barna hefur því ekki aukist marktækt.