"ÉG HEF heyrt að í Reykjavík séu um 400 myndbandsupptökuvélar og að lögreglustjórinn þar hafi fengið því framgengt að komið var á fót opinni sjónvarpsstöð þar sem myndum úr þessum vélum er sjónvarpað. Þetta mun nú vera orðin vinsælasta sjónvarpsstöðin á Íslandi og í mótmælagöngum reyna þátttakendur að komast að því frá hvaða vélum er verið að sjónvarpa svo að þeir geti stillt sér upp nákvæmlega fyrir framan þær og birst á öldum ljósvakans," sagði Ernst Strasser, innanríkisráðherra Austurríkis, á fundi með blaðamönnum í Vín í gær en hann ætlar í þessum mánuði að leggja fram frumvarp, sem heimilar lögreglunni í Austurríki að koma upp eftirlitsmyndavélum og geyma myndir úr þeim.
Myndin fjallar um Jakob Eldrichtsson, lögreglustjóra í Reykjavík, kallaður Citizen Cam af samlöndum sínum, en hann hefur í myndinni stofnað sjónvarpsstöðina Humani TV sem hefur gagnsæi að leiðarljósi. Sjónvarpsstöð lögreglustjórans gefur Íslendingum færi á að fylgjast hver með öðrum, hafa samskipti, tjá sig og njósna hver um annan.
Austurríska blaðið Der Standard hefur í dag eftir talskonu ráðherrans að hann hafi vitneskju sína úr heimildarmynd, sem sýnd hafi verið á sjónvarpsstöðinni Arte. Blaðið upplýsir að Citizen Cam hafi verið sýnd á Arte, síðast í janúar á síðasta ári.
Að sögn Agnesar Johansen, annars framleiðenda myndarinnar, er myndin það sem kallað er leikin "mockumentary", þ.e. eins konar háðheimildarmynd eða gamansöm heimildarkvikmynd. Agnes segir Ísland hafa verið kynnt þannig í myndinni að þar ætti sjónvarpið allan markaðinn og væri með eftirlitsútsendingar og að fólk væri farið að lifa í kringum þær, vinka í vélar o.s.frv. "Það er alveg pottþétt að sumt fólk sem þekkir ekki til Íslands hefur tekið þetta sem heimildarkvikmynd. Myndin var sýnd hér og Canal+ sýndi myndina fyrir 3-4 árum og svo veit ég að stöðin hefur verið að endursýna hana. Og þeir hafa rétt til þess að sýna hana út um allt."