Umferð um Netið mun minni eftir aðgerðir lögreglu í gær

Aðgerðir lögreglu og Samtaka höfundarrétthafa í gær þar sem hald var lagt á tölvur og gögn í tólf húsleitum, virðist hafa haft umtalsverð áhrif á gagnaumferð í landinu. Fram kemur á fréttavefnum Heimi.is að samkvæmt mælingum á umferð um Netið hér á landi sé gagnaumferðin miklu minni í dag en í gær.

Á vef Reykjavik Internet Exchange (RIX), sem er skiptistöð íslenskra netþjónustuaðila, er hægt að skoða yfirlit yfir gagnaumferð síðasta sólarhrings. Þar kemur fram að heildarálag um gigabit-sambönd RIX hafi t.d. verið um 360 megabitar á sekúndu klukkan 14 í gær en í dag var sambærileg tala kl. 14 u.þ.b. 220 megabitar á sekúndu.

Þá segir á fréttavefnum, að þegar umferð á vegum einstakra netþjónustuaðila sé skoðuð, sjáist að umferð um netkerfi þeirra, sem veita einstaklingum þjónustu, minnki verulega en umferð á vegum fyrirtækja sem sinna aðallega öðrum fyrirtækjum sé mun stöðugri milli daga.

Heimur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert