Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, telur að nauðsynlegt sé að hefja veikingu krónunnar sem allra fyrst, það sé eina leiðin til að draga úr viðskiptahallanum. Að öðrum kosti muni hallinn aukast. Þetta kom fram á ráðstefnu sem KB banki hélt í gær um gengi krónunnar.
Sigurður sagði verulega hættu stafa af viðskiptahallanum sem nú ríkti og væri að verulegu leyti fjármagnaður með erlendum lánum. 60% lána fyrirtækja væru í erlendum myntum og 10% lána heimilanna. Hann ráðlagði fyrirtækjum og heimilum að endurfjármagna eða greiða upp erlend lán hið snarasta, til að forðast skell. Gengi krónunnar myndi lækka, og fyrr en talið hefði verið.
Á ráðstefnunni kom fram að lántaka heimilanna í erlendri mynt gæti haft áhrif til þess að halda genginu háu en færi svo að gengið tæki að falla hratt yrði fjárhagur heimilanna fyrir miklu höggi. Lýstu þeir Sigurður Einarsson og Ásgeir Jónsson lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, töluverðum áhyggjum af gengisbundnum lánum heimilanna. Samkvæmt skýrslu greiningardeildar KB banka hafa gengisbundin lán heimilanna þrefaldast á einu ári og eru orðin 10% allra lána þeirra.
Sigurður benti á að nota mætti reglur um eiginfjárstöðu bankanna sem hagstjórnartæki. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær sagði hann bankana bera töluverða ábyrgð á þeirri þróun sem orðið hefur til þess að skuldastaða heimilanna, meðal annars í erlendri mynt, hefur vaxið svo sem raun ber vitni. Sá möguleiki væri fyrir hendi að Fjármálaeftirlitið nýtti heimildir sínar til að hækka eiginfjárhlutfall bankanna til þess að minnka lausafjárstöðu þeirra og draga þannig úr þörf þeirra til þess að lána fé.
Um þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri, í erindi sínu á ráðstefnu KB banka: "Ég veit að Páll Gunnar Pálsson, forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins myndi halda því fram að það sé ekki hægt að hringla með eiginfjárhlutföll eftir hagsveiflunni, það sé allavega ekki hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því."