Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr. Sjór mun ganga upp að Tjörninni í Reykjavík á næstu 1000 árum ef ekkert verður að gert. Þetta segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur Orkustofnunar, sem rannsakað hefur hlýnun loftlags og bráðnun jökla hér á landi. Í nýrri skýrslu Orkustofnunar kemur fram að jöklar á Íslandi hafi aldrei bráðnað hraðar en árið 2003. Bráðnun jökla mun aukast talsvert ef ekki verður gripið til aðgerða, að mati Odds.
Orkustofnun mælir bráðnun jökla ár hvert. Niðurstöður nýlegrar skýrslu fyrir loftlagsbreytingar árið 2003 benda til að loftslag á Íslandi fari hlýnandi. Oddur segir jöklana besta mælikvarða á breytingar á loftslagshita.
"Jöklar eru mjög næmir. Þeir finna vel fyrir hitabreytingum og því góður mælikvarði á breytingar í andrúmsloftinu," segir Oddur.
Horfinn heimur birtist á ný
Síðustu þrjú ár hefur hiti loftslags hér á landi verið sá hæsti sem mælst hefur frá upphafi mælinga árið 1822. Oddur segir ástæðuna fyrir því vera breytingar á koldíoxíði í andrúmsloftinu. "Á síðustu öld jókst koldíoxíð mikið, en það hefur ótvíræð áhrif á hlýnun hitastigs á jörðinni. Má um því kenna iðnvæðingunni, útblæstri frá verksmiðjum og aukinni einkabílavæðingu, ásamt fleiri þáttum. Hækkunin nam tveimur gráðum á síðustu öld og virðist ekki í sjónmáli að sú tala lækki á komandi árum," segir Oddur.
"Flatarmál allra jökla á landinu er um 11.000 ferkílómetrar," heldur Oddur áfram. "Flatarmál þeirra minnkar um 0,2 prósent á ári, sem þýðir að íslenskir jöklar hafi minnkað um 20 til 30 ferkílómetra á hverju ári," segir Oddur.
Hann segir bráðnun jökla hafa í för með sér að landsvæði sem legið hefur undir ís í hundruð ára vera forvitnilegt viðfangsefni. Nefnir hann mannvistarleifar á Breiðamerkursandi í þessu sambandi og aðrar jarðvistarleifar sem flestir hafi talið glataðar um aldur og ævi.
Nauðsynlegt að taka höndum saman
Oddur segir gríðarlega mikilvægt að koma böndum á hækkandi hitastig jarðar. Menn verði að taka höndum saman ætli þeir að ná markmiðum sínum. "Kyoto-bókunin er dæmi um tilraun til að ganga í málið. Ég efast hins vegar um að þetta sé nóg því stjórnvöld margra landa hafa fengið leyfi til að hleypa meira koldíoxíði út í andrúmsloftið en upphaflegi samningurinn kvað á um," segir Oddur. "Hækkun hitastigs er mesti vandi sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir frá upphafi daga. Ef menn bregðast hratt við og draga úr koldíoxíði í andrúmsloftinu þá er í besta falli hægt að koma hitastigi jarðar niður á hundrað árum. Hættan er hins vegar sú að menn tregðist enn frekar við. Afleiðingarnar eru hræðilegar."
Fjöldi landa undir sjó
Við bráðnun jökla safnast ár í færri farvegi. Yfirborð sjávar hækkar við það og segir Oddur að yfirborð sjávar hafi hækkað að meðaltali um 3-3,5 millimetra á ári. Þetta samsvarar feti á öld, eða um 30 sentímetrum. Með þessu áframhaldi telur hann yfirborð sjávar hækka um þrjá metra á þúsund árum og sé augljóst að fjöldi landa við miðbaug muni hverfa undir sjó.
"Yfirborð sjávar í Faxaflóa mun hækka talsvert og færa höfnina í Reykjavík í kaf. Sjór gengi fast upp að Iðnó við Tjörnina," segir Oddur.