Auðun Georg segist ekki þiggja starf fréttastjóra

Auðun Georg Ólafsson kom til vinnu í Útvarpshúsinu í morgun.
Auðun Georg Ólafsson kom til vinnu í Útvarpshúsinu í morgun. mbl.is/Árni

Auðun Georg Ólafsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir, að með tilliti til aðstæðna á fréttastofu Ríkisútvarpsins sjái hann sér ekki fært að þiggja starf fréttastjóra Útvarps og muni því ekki skrifa undir ráðningarsamning.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Með tilliti til aðstæðna á fréttastofu Ríkisútvarpsins sé ég mér ekki fært að þiggja starf fréttastjóra og mun ég því ekki skrifa undir ráðningarsamning.

    Ég sótti um starfið á jafnræðisgrundvelli án þess að vera til þess hvattur og ekki í umboði eins eða neins, hvorki stjórnmálaafla né annarra.

    Þrátt fyrir að vegið hafi verið að persónu minni með afar ósanngjörnum hætti, mannorð mitt svert með röngum ásökunum, hreinum lygum haldið á lofti og mér allt að því hótað, ákvað ég engu að síður að mæta til starfa með opnum huga og gefa fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins tækifæri til að sýna að sanngirni, hlutleysi, réttlæti og fagleg vinnubrögð væru höfð að leiðarljósi. Í viðtali sem ég veitti fréttamanni Ríkisútvarpsins í dag í tilefni af því að ég hæfi störf var með lævíslegum hætti reynt að koma mér í vandræði. Það tókst, þar sem ég vildi ekki rjúfa trúnað. En fréttamaðurinn var ekki hlutlaus, hann var málsaðili, og honum tókst ekki að gera greinarmun þar á.

    Ég hlakkaði til að takast á við skemmtilegt og ögrandi starf á fréttastofu sem naut trausts og þekkt var fyrir málefnaleg og fagleg vinnubrögð.

    Það er með miklum trega sem ég lýsi yfir að væntingar mínar voru á misskilningi byggðar.

    Auðun Georg Ólafsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert