Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í líkfundarmálinu svonefnda í Neskaupstað og voru þeir Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Thomas Malakauskas allir dæmdir í 2½ árs fangelsi hver. Til frádráttar kemur 32 daga gæsluvarðhald sem mennirnir þrír sátu í meðan á rannsókn málsins stóð.
Þá er mönnunum gert að sæta upptöku á 223,67 grömmum af amfetamíni, sem fundust í iðrum Litháans Vaidasar Juceviciusar, en lík hans fannst í höfninni í Neskaupstað í febrúar sl. þar sem sakborningarnir komu því fyrir.
Hæstiréttur sakfelldi Grétar, Jónas Ingi og Malakauskas fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn lífi og líkama og fyrir ósæmilega meðferð á líki, með því að hafa í ágóðaskyni, staðið að innflutningi á framangreindu amfetamíni hingað til lands.
Hafði Jucevicius flutt efnið til landsins í 61 pakkningu innvortis í líkama sínum, en veikst daginn eftir komu sína vegna stíflu í mjógirni af völdum pakkninganna.
Létu Grétar, Jónas Ingi og Malakauskas farast fyrir að koma Jucevicius til hjálpar og lést hann þremur dögum síðar. Fluttu þeir lík hans til Neskaupstaðar og sökktu því þar í sjó.