Hæstiréttur staðfestir refsingu í líkfundarmáli

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í líkfundarmálinu svonefnda í Neskaupstað og voru þeir Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Thomas Malakauskas allir dæmdir í 2½ árs fangelsi hver. Til frádráttar kemur 32 daga gæsluvarðhald sem mennirnir þrír sátu í meðan á rannsókn málsins stóð.

Þá er mönnunum gert að sæta upptöku á 223,67 grömmum af amfetamíni, sem fundust í iðrum Litháans Vaidasar Juceviciusar, en lík hans fannst í höfninni í Neskaupstað í febrúar sl. þar sem sakborningarnir komu því fyrir.

Hæstiréttur sakfelldi Grétar, Jónas Ingi og Malakauskas fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn lífi og líkama og fyrir ósæmilega meðferð á líki, með því að hafa í ágóðaskyni, staðið að innflutningi á framangreindu amfetamíni hingað til lands.

Hafði Jucevicius flutt efnið til landsins í 61 pakkningu innvortis í líkama sínum, en veikst daginn eftir komu sína vegna stíflu í mjógirni af völdum ­pakkn­inganna.

Létu Grétar, Jónas Ingi og Malakauskas farast fyrir að koma Jucevicius til hjálpar og lést hann þremur dögum síðar. Fluttu þeir lík hans til Neskaupstaðar og sökktu því þar í sjó.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert