Samningur FL Group og Air China um leigu á fimm flugvélum af gerðinni Boeing 737-800 var undirritaður í Peking í morgun við hátíðlega athöfn að viðstöddum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group, og Zhang Yang, forseti Air China, undirrituðu samninginn. Air China mun leigja fimm nýjar Boeing 737-800 vélar af FL Group til átta ár og verða vélarnar afhentar jafnóðum og þær koma úr framleiðslu frá verksmiðjum Boeing í Seattle. Samningurinn mun vera á milli 170 og 180 milljóna dollara virði. Í fréttatilkynningu um samninginn segir að hann sé háður samþykki kínverskra yfirvalda, en það mun vera venja í Kína að yfirvöld yfirfari alþjóðlega samninga, sem gerðir eru við kínversk fyrirtæki.