Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar 75 ára afmæli í dag, en sambandið var stofnað í Hvannagjá á Þingvöllum þann 27. júní 1930. Fyrsti formaður SUS var kjörinn Torfi Hjartarson, en núverandi formaður sambandsins er Hafsteinn Þór Hauksson.
Til að fagna afmælinu munu ungir sjálfstæðismenn halda hátíðarstjórnarfund á Þingvöllum í dag, þar sem Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður SUS, flytur ávarp. Í dag hefst jafnframt greinaflokkur á vef ungra sjálfstæðismanna með greinum eftir fyrrverandi formenn SUS, sem skrifaðar eru í tilefni afmælisins. Fyrsta greinin er eftir Ásgeir Pétursson, fyrrverandi sýslumann og bæjarfógeta, sem gegndi embætti formanns SUS frá 1955 til 1957.