Svifryk hættulegra en umferðin í Stokkhólmi

Flest bendir til að jafnvel lítið magn svifryks í andrúmslofti hafi áhrif á heilsuna. Meðaltal sýnir að svifryksmengun fækkar lífdögum Stokkhólmsbúa meira en umferðarslys í borginni. Fulltrúi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, sem sótti vinnufund sérfræðinga um svifryksmengun í Stokkhólmi, segir það brýnt heilsufarsmál að finna leiðir til að draga úr þessari mengun. Þetta kemur fram á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.

„Áhrif svifryks á heilsu manna eru alvarleg og því er nauðsynlegt að finna aðferðir til að draga úr styrk þess í andrúmslofti í stórborgum á Norðurlöndunum. Segja má að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða sérfræðinga frá Ósló, Gautaborg, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Reykjavík sem héldu nýlega vinnufund í Stokkhólmi þar sem sjónum var beint að svifryki sem heilsuvandamáli og rætt um lausnir til að draga úr styrk þess í andrúmslofti borganna," að því er segir á vef umhverfissviðs.

Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri Mengunarvarna hjá Umhverfissviði, sótti fundinn, ásamt Guðbjarti Sigfússyni hjá Framkvæmdasviði, og nefnir Lúðvík meðal annars til sögunnar erindi Christer Jóhansson frá umhverfisstofnun Stokkhólms um heilsuáhrif og mælingar svifryks í höfuðborg Svíþjóðar og tillögur um næstu skref. Helstu niðurstöður voru að bæði grófar og fínar agnir svifryks hafa slæm áhrif á heilsu manna. Grófar agnir eru aðallega tilkomnar vegna vegslits og fínar vegna útblásturs farartækja. Flest bendir til að jafnvel lítið magn svifryks í andrúmslofti hafi áhrif á heilsuna. Christer bar saman þætti í Stokkhólmi sem fækka lífdögum borgarbúa í heildarsamhengi. Þar kemur fram að reykingar stytta lífið um 400 daga, umferðaslys um 30-50 daga og svifryksmengun um 60-70 daga, að því er fram kemur á vef umhverfissviðs.

„Lúðvík segir að mikið hafi verið rætt um rykbindingu og reynslu af mismunandi efnum, frá venjulegu salti til saltgerða á borð við Kalsíum-magnesíumasetat og magnesíumklóríð. Tilraunir frá Gautaborg virðast sýna minnkun á ryki eftir notkun CMA sem einnig er notað á götum Stokkhólms. Mikil umræða var einnig um hreinsun gatna, sem virðist skila einhverju en er aldrei nægjanleg aðgerð til að minnka svifryk niður fyrir heilsuverndarmörk," samkvæmt vef umhverfissviðs.

Í Svíþjóð er skylda að keyra á vetrardekkjum á ákveðnu tímabili, hvort sem þeir eru negldir eða ekki. Nagladekkjanotkun í Stokkhólmi er um 70-80% en í Óslo féll hún niður í 20% eftir gjaldtökuna í nóvember 2004. Svifryk í Kaupmannahöfn er af öðrum toga en í Stokkhólmi, því þar eru nagladekk ekki notuð og vegslit ekki vandamál. Svifryksmengun verður til umræðu á næsta stórborgarfundi Norðurlandanna síðar á þessu ári.

„Lúðvík segir að fylgjast þurfi vel með rannsóknum á svifryki í tengslum við áhrif þess á heilsu manna. Yfirvöld í Ósló og Stokkhólmi glíma við nákvæmlega sömu vandamál og Reykvíkingar varðandi svifryk, en eru komin lengra í aðgerðum og undirbúningi gegn þessari mengun, segir hann. Í þessum borgum eru nagladekk talin meðal höfuðorsaka fyrir svifryksmengun, en þó er vert að benda á að þar er hlutfallslega minna af svifryki í lofti af völdum vegslits en hjá okkur. Samsetning svifryks í Reykjavík er nú talin vera eftirfarandi: Malbik 55%, jarðvegur 25%, sót 7%, salt 11% og bremsuborðar um 2%.

Í Ósló fer fram gjaldtaka vegna nagladekkjanotkunar og er sú leið talin árangursrík til að draga úr notkun slíkra dekkja. Í Stokkhólmi fer nú fram fræðsla um skaðsemi svifryks fyrir heilsu manna og gjaldtaka vegna nagladekkja er í undirbúningi. Nú þegar er tekið almennt gjald fyrir akstur í miðborg Stokkhólms og er það gert til að draga úr umferð. Lúðvík telur því að tillaga vinnuhóps um notkun nagladekkja á vegum Umhverfissviðs og Framkvæmdasviðs um nauðsyn þess að upplýsa og fræða um þá hættu sem borgurum stafar af svifryksmengun vera góða. Auk þess er samráð við hagsmunaaðila lagt til og skoðun á mögulegri gjaldtöku í Reykjavík vegna notkunar nagladekkja.

Svifryksumræðan hefur undanfarið verið mjög ofarlega á baugi í Stokkhólmi og má nefna að blaðauki um svifryksmengun fylgdi Sænska dagblaðinu 27. nóvember 2005, þar sem aðalfyrirsögnin var: „Stockholms luft er sjuk“.

Lúðvík telur að ekki hafi verið sýnt fram á að nagladekk séu nauðsynleg í Reykjavík. „Vegna alvarlegra áhrifa svifryksmengunar á heilsu manna þarf að sýna fram á gildi nagladekkja í Reykjavík með óyggjandi hætti,“ segir hann og leggur áherslu á að aðgerðir til að takmarka nagladekk í Reykjavík séu ekki gerðar til að draga úr öryggi heldur til að vernda heilsu manna," að því er fram kemur á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert