Loftleiðir Icelandic eru nú að fljúga með 92 efnaða ferðamenn sem eru í 20 daga lúxusferð kringum hnöttinn. Farkosturinn er Boeing 757-flugvél sem var sérstaklega breytt vegna fararinnar. Ekkert er til sparað að gera ferðalagið sem glæsilegast, hvorki í mat, gistingu, afþreyingu eða aðbúnaði, enda kostar hver farseðill um 50 þúsund bandaríkjadali eða meira en 3,5 milljónir króna, að sögn Sigþórs Einarssonar, framkvæmdastjóra Loftleiða Icelandic.
Ferðin hófst í Washington D.C. sl. laugardag og var fyrsti áfangastaður Lima í Perú. Í fyrradag var flugvélin á Páskaeyjum í Kyrrahafi. Þaðan verður haldið um Ástralíu, Asíu og Afríku uns ferðinni lýkur í Bandaríkjunum. Innréttingu flugvélarinnar var breytt en sæti eru fyrir 92 farþega í stað í kringum 200 sæta með venjulegri sætaskipan í flugvél af þessari gerð.
Hluti sætanna var seldur í gegnum félag sem tengist National Geographic-landfræðifélaginu og er lögð talsverð áhersla á fræðslu í ferðinni. Heimsþekktir fyrirlesarar fylgja ferðafólkinu og fræða það um næsta áfangastað.
Áhöfnin er að mestu íslensk. Flugstjóri og tveir flugmenn, flugvirki, átta flugþjónar, íslenskur matreiðslumeistari og annar bandarískur frá skipuleggjanda ferðarinnar. Kokkarnir útbúa úrvals veislumat fyrir hvern áfanga.
"Allt fæði er fyrsta flokks, Beluga-kavíar og kampavín í morgunmat og framhaldið á svipuðum nótum," sagði Sigþór.
Horfur eru á fjölgun ferða af þessu tagi hjá Loftleiðum Icelandic. Þegar er búið að ákveða fjórar slíkar ferðir næsta vetur.