Bensínverð aldrei hærra

Olíufélagið ehf. hækkaði eldsneytisverð allverulega í gær, eða um 3,60 krónur á hvern lítra af bensíni, 2,40 kr. á dísil- og gasolíu og lítraverð á flotaolíu, flotadísilolíu og svartolíu IFO 30 hækkar um tvær krónur.

Í tilkynningu frá Olíufélaginu kemur fram að hækkunina megi rekja til þess að á síðustu tveimur mánuðum hefur heimsmarkaðsverð á olíu farið stöðugt hækkandi. Mest hafi hækkunin orðið á bensíni, eða 18,6%, frá 1. febrúar sl.

Þar að auki hafi staða krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum farið versnandi en bandarískur dollar var skráður á rúmar 62 krónur í byrjun febrúar sl., en er nú skráður á rúmar 74 krónur.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), segir það hafa legið ljóst fyrir að eldsneytisverð ætti eftir að hækka og vísar því til stuðnings til hækkandi heimsmarkaðsverðs og veikingar krónunnar. Fréttir af hækkun verðlags og neikvæðri verðlagsþróun eru mikið áhyggjuefni að mati Runólfs en nú er svo komið að bensínlítrinn hefur aldrei verið hærri. „Við erum að horfa á það að hátt í 60% af útsöluverði bensínlítrans eru skattar í ríkissjóð og það hlýtur að vera eðlilegt á svona tímapunkti að stjórnvöld leiti allra leiða til að draga úr þeim verðhækkunum sem dynja á almenningi og neytendum,“ segir Runólfur og bætir við að bensín vegi mjög hátt í vísitölu neysluverðs og þess heldur mikilvægt fyrir stjórnvöld að grípa inn í.

Önnur félög ekki enn hækkað

Eftir breytinguna er algengasta verð hjá Olíufélaginu í sjálfsafgreiðslu á stöð með fullri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu 122,80 kr. á lítra af 95 oktana bensíni og 117,90 kr. á dísilolíu. Ekki var tilkynnt um hækkanir hjá öðrum olíufélögum í gær og er sambærilegt verð hjá Olís og Skeljungi, 119,30 kr. fyrir bensín og 115,50 kr. fyrir dísilolíu. Á sjálfsafgreiðslustöðvum Atlantsolíu, Ego, og ÓB kostar bensínlítrinn 117,8 kr. Á afgreiðslustöðvum Orkunnar er verðið 0,10 krónum lægra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert