Farið er að draga úr rennsli Skaftár í byggð. Samkvæmt mælum er rennsli í Eldvötnum við Ása nú 508 rúmmetrar á sekúndu en það fór hæst í 636 rúmmetra í gær. Þannig hélst það stöðugt á fjögurra klukkustunda tímabili í gær, frá 13 til 17, að sögn Snorra Zóphóníassonar, sérfræðings hjá Orkustofnun. Einnig er farið að draga úr rennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur.
Vatnsborðið í Skaftá hafði hækkað með snarauknu rennsli fyrsta kastið en vatnsborðið hækkaði ekki frá hádegi og fram á daginn í gær að sögn Snorra. Niðurstöður mælinga hjá Ásum sýndu þá að þetta var með allra stærstu Skaftárhlaupum.
„Hlaupið óx óvenjuhratt og í slíkum hlaupum eru þau fljót að ná hámarki og síðan lýkur þeim snögglega," sagði Snorri. „Þessi hraði vöxtur var sérstakur og einnig að hlaupið kom upp úr jöklinum í stað þess að fara í göngum í gegn og síðan fór smávegis vatn í Tungnaá, en það vitum við ekki til að hafi gerst áður."
Smíðaður hefur verið kláfur yfir Skaftá við Ása sem gegnir því hlutverki að ferja mælitækið, svokallaðan hlaupakött með trissu neðst í sér. Þar er straumlínulagað lóð með stéli í skut en hraðamælisskrúfu að framanverðu. „Síðan mælum við um 120 punkta í lóðréttum þversniðum og fáum formið á vatnið, sem streymir fram, með öllum þessum hraðapunktum og reiknum út rennslið. Það fór aldrei yfir 636 rúmmetra hér, en ég er viss um að það hafi farið yfir þúsund rúmmetra við upptökin," sagði Snorri.
Brennisteinsvetni í jökulvatninu ógnaði ekki mælingamönnum á vettvangi í gær, þótt hin eitraða lofttegund hefði verið talsverð fyrir hádegi en fnykurinn barst síðan í suðvestanáttinni norður í land og fannst mjög greinilega á Blönduósi.
Svipað Skaftárhlaupinu 1996
Sérstaða hins mikla Skaftárhlaups var þríþætt að mati Odds Sigurðssonar, jarðfræðings hjá Orkustofnun, sem flaug yfir Skaftá og upptök hennar við Skaftárjökul á laugardag.
„Þetta var í fyrsta lagi eitt af stærstu hlaupunum sem komið hafa í Skaftá og í öðru lagi bar það svo brátt að, að það sprengdi sér leið upp í gegnum jökulinn, langt frá jökulsporði," segir Oddur. „Í þriðja lagi fór hlaupið að hluta til, að vísu litlum hluta, í Tungnaá, sem ég veit ekki til að hafi gerst áður. Þetta hlaup virðist einnig hafa hegðað sér mjög svipað og Skeiðarárhlaupið 1996, en er náttúrlega stærðargráðunni minna og rúmlega það."
Oddur segir ennfremur að gengið sé út frá því að hlaupið hafi komið úr eystri Skaftárkatli, þótt ekki hafi það fengist fyllilega staðfest ennþá. "En það er ekkert sem bendir til annars," segir hann.
Sprengikrafturinn í hlaupinu var gríðarlegur en framvindan var með þeim hætti að hlaupið, jafn skyndilegt og það var, lá undir feiknalega miklum jökulþrýstingi og sprengdi vatnið sér leið upp í gegnum 100 metra þykkan jökulinn eða meira. „Svo þykkur jökull er ekki stökkur, heldur seigfljótandi. Til þess að það komi sprunga í hann þarf mikinn þrýstingsmun."