Þurramistur gefur okkur fallegt sólsetur

Þurramistur yfir Smáeyjum í Vestmannaeyjum, reikna má með svipaðri litadýrð …
Þurramistur yfir Smáeyjum í Vestmannaeyjum, reikna má með svipaðri litadýrð við sólsetur í kvöld. mbl.is/Sigurgeir Jónasson

Með góðviðrinu sem glatt hefur landsmenn undanfarið höfum við fengið loft frá meginlandi Evrópu sem færir okkur ekki einungis hlýindi heldur einnig falleg sólsetur. Margir urðu varir við fallega bleikt og jafnvel purpuralitað sólarlag í gærkvöldi, sérstaklega gætti þessa á austan- og sunnanverðu landinu. Í loftinu er svokallað þurramistur og í því eru örsmáar agnir sem valda þessum litabreytingum.

„Þetta loft kemur frá vinum okkar í Suður-Póllandi, þeir eiga aðeins eftir að taka til í sínum umhverfismálum og hætta að brenna brúnkolum eins og Bretar gerðu í kringum 1980,” sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

„Veðrið sem var hjá okkur um klukkan 18 í gær var yfir Suður-Póllandi síðdegis á föstudaginn var,” sagði Einar.

Agnirnar eiga ættir sínar að rekja til iðnaðarmengunar en eiga ekkert skylt við svifryk sem er heimatilbúin mengun.

Þurramistur samanstendur af ögnum af smæstu gerð og þegar sólin er lágt á lofti og geislar hennar þurfa að fara um langan veg í gegnum andrúmsloftið, þá síast út aðrir litir en rauður og bleikur því hinar smáu agnir dreifa öðru sólarljósi og virka eins og sía.

„Þetta fyrirbæri gæti vel sést aftur í kvöld því það er mikið mistur yfir landinu,” sagði Einar að lokum. Hann þvertók fyrir að þetta loft gæti verið hættulegt, því það væri yfir Evrópulöndunum meira og minna allan ársins hring.

Frá sólsetrinu í gærkvöldi, miklar líkur eru á endursýningu í …
Frá sólsetrinu í gærkvöldi, miklar líkur eru á endursýningu í kvöld. mbl.is/Sigurgeir Jónasson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert