Geitungar eru farnir að sjást í ár, en þó í litlum mæli enn sem komið er, að sögn Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Erling kveðst bæði hafa séð geitunga sjálfur og þá hafi hann frétt frá fólki sem séð hefur þá á sveimi undanfarið. Hann viti hins vegar ekki til þess að nein geitungabú hafi fundist enn sem komið sé. "Það hefur sést til eins og eins geitungs frá í mars, eins og alltaf er," segir Erling. Hann segir að í maí komi venjulega einn almennur "uppstigningardagur geitunga" en þá verði skepnanna skyndilega vart í nokkrum mæli. Nokkuð breytilegt sé hvaða dag í maí þetta gerist. ".Það getur verið á bilinu 10.-25. maí, en stundum hefur þessi dagur haldist í hendur við kjördag," segir Erling. Vitað sé til þess að geitungar hafi farið að láta sjá sig á kjördag í forsetakosningum sem og í þingkosningum á fyrri árum. Þar sem ekki verður kosið til sveitarstjórna fyrr en 27. maí næstkomandi telur Erling þó líklegast að þá verði geitungarnir þegar komnir fram.