Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra barna og unglinga með því lægsta sem gerist í Evrópu

Hér má sjá þrjá ráðlagða dagskammta af grænmeti og ávöxtum, …
Hér má sjá þrjá ráðlagða dagskammta af grænmeti og ávöxtum, samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustofnunar. mbl.is

Ávaxta- og grænmetisneysla 9 og 15 ára barna á Íslandi hefur aukist, en er þó enn með því lægsta sem gerist í Evrópu og er einungis um helmingur þess sem ráðlagt er. Þetta er samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga sem Rannsóknastofa í næringarfræði (RÍN) og Lýðheilsustöð stóðu að, unnin var af RÍN 2003-2004.

Vatnsdrykkja hefur þó stóraukist og gosdrykkjaneysla staðið í stað frá síðustu könnun og hafa ýmsar jákvæðar breytingar orðið á mataræði ungs fólks síðastliðinn áratug, að mati höfunda skýrslu um rannsóknina. Þar má nefna aukna vatnsdrykkju og að ávaxta- og grænmetisneysla hefur aukist lítillega frá fyrri rannsókn, á svipuðum aldurshópum, sem gerð var á árunum 1992-1993.

Vatnsdrykkja barna og unglinga hefur stóraukist á síðastliðnum áratug – úr u.þ.b 2 dl/dag í 5 dl/dag en hins vegar er neysla á sykruðum gosdrykkjum og öðrum sykruðum drykkjum einnig mjög mikil. Ástæða þykir til að vara við því vegna tengsla neyslu slíkra drykkja við ofþyngd og offitu m.a.

Í könnuninni kom fram að 9 ára börn drekka að meðaltali tæplega 2,5 lítra á viku af gosdrykkju og sætum svaladrykkjum og 15 ára unglingar tæplega 4 lítra á viku. Þá er neikvæð fylgni milli gosdrykkjaneyslu og mjólkurneyslu. Ávaxta- og grænmetisneysla hefur aukist, eins og fyrr segir, en er samt með því lægsta sem gerist í Evrópu. Hún er aðeins helmingur þess sem ráðlagt er og aðeins þrjú 9 ára börn, eða 1,5% af úrtakinu, og einn 15 ára unglingur, eða 0,5% af úrtakinu, borðuðu að jafnaði 200 grömm eða meira af grænmeti daglega en það er ráðlögð dagleg neysla af grænmeti.

9 ára börn borða að meðaltali 36 grömm á dag af grænmeti og 15 ára unglingar 45 grömm á dag. Er þess getið á heimasíðu Lýðheilsustöðvar að meðalstór gulrót vegur um 60 grömm og meðalstór tómatur vegur um 80 grömm. Innan við 15% fylgja ráðleggingum um ávaxtaneyslu, sem hljóðar upp á a.m.k. 200 grömm á dag.

Stór hluti barna á erfitt með að fullnægja joðþörf. Fiskneyslan er mjög lítil og þess vegna á stór hluti barna og unglinga erfitt með að fullnægja joðþörf sinni. 44% 15 ára unglinga fá minna en sem nemur meðaltalsþörf fyrir joð. Æskilegt er talið að neyta fiskmáltíðar að minnsta kosti tvisvar í viku, fyrir utan álegg eða salat úr fiski.

Þá fær meira en helmingur ekki nóg D-vítamín en ráðlögð D-vítamínneysla fyrir börn og unglinga er 10 míkrógrömm dag. Meira en helmingur barna og unglinga í rannsókninni fær ekki nægilega mikið af D-vítamíni og neysla á trefjum er af skornum skammti og neysla á viðbættum sykri er meiri en ráðlagt er. Þetta stafar af því að of mikið er valið af mikið unnum kolvetnaríkum matvælum í stað grófmetis auk þess sem neysla ávaxta og grænmetis er lítil.

Niðurstöður könnunarinnar benda eindregið til þess að brauðmeti og kornmatur í fæði 9 og 15 ára barna og unglinga sé ekki jafngróft og trefjaríkt og ráðleggingar gera ráð fyrir. Þetta endurspeglast í lítilli trefjaneyslu og mikilli neyslu á viðbættum sykri. Börn á aldrinum 9 ára fá að meðaltali um 15 grömm á dag af trefjum og 15 ára 18 grömm á dag. Miðað við orkuþörf 9 ára barna ætti dagleg trefjaneysla að vera um það bil 20 grömm á dag en að minnsta kosti 25 grömm á dag hjá 15 ára unglingum.

Þá fá 9 ára 70 grömm á dag (13,1% orku) af viðbættum sykri og 15 ára unglingar 100 grömm á dag (16,1% orku). Þessar upplýsingar um rannsóknina eru fengnar af heimasíðu Lýðheilsustöðvar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert