Á dráttarvélinni til vinnu

Emilía Höskuldsdóttir og Bjarni Jón Kristjánsson við farkostinn
Emilía Höskuldsdóttir og Bjarni Jón Kristjánsson við farkostinn Jóhann Guðni Reynisson

Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá Norðlendingum síðustu daga og er varla hægt að segja að þar sé vorlegt um þessar mundir. Bílar hafa lent í vandræðum vegna snjóa á Fljótsheiði austanverðri og í Reykjadal hefur þurft að moka heimreiðar svo fólk komist til vinnu. Skólahald í Litlulaugaskóla var fellt niður í dag vegna veðurs og fannfergis. Fuglar fjúka og kindur og hestar hafa verið tekin á hús að því er segir á fréttavef Þingeyjarsveitar.

Íbúarnir deyja hins vegar ekki ráðalausir í hríð og fannfergi. Emilía Höskuldsdóttir, sem starfar á skrifstofu Þingeyjarsveitar, sá ekki fram á að komast leiðar sinnar á fjölskyldubílnum og fór því á dráttarvél heimilisins til vinnu. Bjarni Jón Kristjánsson, sonur hennar, sem fékk frí í skólanum í dag, var henni til aðstoðar og tilkynnti samstarfsmönnum móðurinnar að hann hefði kennt henni á tækið.

Elstu menn í Þingeyjarsveit muna vart eftir slíku veðri á þessum árstíma, en helst þykir vorið 1979 hafa nálgast það að vera jafn slæmt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert