Stjórnendur LSH gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu formanns Fíh

Landsspítali - háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landsspítali - háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Þorkell

Stjórnendur á Landsspítala - háskólasjúkrahúsi hafa gert alvarlegar athugasemdir við framgöngu Elsu Friðfinnsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), vegna fyrirhugaðrar ráðningar danskra hjúkrunarfræðinga til þess að mæta alvarlegum skorti á hjúkrunarfræðingum á sjúkrahúsinu í sumar. Fram kemur að tilgangurinn með ráðningu þeirra hafi verið fyrst og fremst að tryggja öryggi sjúklinga meðan á sumarleyfistíma stendur á LSH.

Fram kom í gær, að Fíh telji að dönsku hjúkrunarfræðingarnir muni njóta mun betri kjara en íslenskir hjúkrunarfræðingar á spítalanum, bæði með tilliti til launa og fríðinda á borð við fríar ferðir, frítt húsnæði og vikulegar skemmtiferðir. Þá kom fram að félagið fari fram á að íslenskir hjúkrunarfræðingar njóti sömu kjara og þeir dönsku á álagstímum sem framundan eru.

Fram kemur í athugasemdum stjórnenda LSH að viðbrögð Elsu veki undrun einkum í ljósi þess að hún þekki vel til þess mönnunarvanda sem steðji að sjúkrahúsinu. Kjarasamanburður sé villandi og ósanngjarn. Bent er á að Elsa hafi undirritað ályktun þann 12 maí sl. þar sem hjúkrunarfræðingar ítrekuðu mikilvægi mönnunar fyrir öryggi sjúklinga og ægði þjónustunnar. Einnig hafi verið bent á tengslin milli fjölda hjúkrunarfræðinga og afdrifa sjúklinga.

Þá segir að hjúkrunarstjórnendur hafi haft miklar áhyggjur af mönnum vegna sumarleyfa og orlofs hjúkrunarfræðinga. Síðustu mánuði hafi starfsfólkið skilað frábærri vinnu við erfiðar aðstæður þar sem að jafnaði vantar fólk. 1.200 hjúkrunarfræðingar eigi rétt til sumarleyfa og hjúkrunarstjórnendur leggi kapp á að svo geti orðið.

„Vegna skorts á á hjúkrunarfræðingum var með öllu nauðsynlegt að fara út fyrir landsteinana í leit að starfsfólki. Samningur við danska starfsmannaleigu er nú í drögum. Hann er hliðstæður þeim sem LSH hefur gert við íslensk hjúkrunarverktakafyrirtæki á undanförnum árum, þ.e. Liðsinni og Alhjúkrun. Um er að ræða skammtíma verktakaráðningu í 10 vikur til að mæta því tímabili sem sjúkrahúsið er í mestum vanda vegna sumarleyfa,“ segir í athugasemdunum.

Fram kemur fram að settur hafi verið fram samanburður þar sem sýnd séu kjör fastráðinna starfsmanna á LSH annarsvegar og kaup á þjónustu frá erlendri starfsmannaleigu. Þetta sé ekki samanburðarhæft með þeim hætti sem formaður Fíh geri. „Landsspítalinn er ekki vinnuveitandi umræddra starfsmanna. Dönsku hjúkrunarfræðingarnir eru starfsmenn hins danska fyrirtækis og njóta launakjara í samræmi við samninga sem þeir hafa gert við danska fyrirtækið. Hið sama gildir varðandi viðskipti LSH við hinar íslenskar starfsmannaleigur,“ segir í athugasemdunum. Hvað kostnað varði sé samningur við danska fyrirtækið sambærilegur. Hins vegar hafi danska fyrirtækið yfir að ráða sérhæfum hjúkrunarfræðingum sem íslensku fyrirtækin hafi ekki.

„Sumarlokanirnar í ár eru talsvert minni en undanfarin ár til þess að draga úr álagi á spítalanum í heild og tryggja nauðsynlega þjónustu. Auk þess er ljóst að þeim deildum verður ekki lokað þar sem sérhæfing er mikil, svo sem gjörgæsludeildum, lungnadeild, taugalækningadeild og krabbameinslækningadeildum svo eitthvað sé nefnt. Því var nauðsynlegt að fá til starfa hjúkrunarfræðinga sem ekki eru til staðar hérlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert