Yfir 40% stöðuveitinga pólitískar samkvæmt rannsókn stjórmálafræðiprófessors

Í nýrri rannsókn, sem Gunnar Helgi Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur gert er komist að þeirri niðurstöðu að rúmlega 40% opinberra stöðuveitinga eigi sér pólitískar rætur. Þetta kemur fram í grein í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Gunnar Helgi skoðaði 111 stöðuveitingar til æðstu starfa hjá ríkinu á tímabilinu 2001–2005. Af þeim voru 82 stöður forstöðumanna ríkisstofnana en aðrar stöður sendiherra, ráðuneytisstjóra og hæstaréttardómara. Flestir voru ráðnir af ráðherra, en nokkrir með öðrum hætti.

Gunnar Helgi komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að samtals hefðu 44% þeirra sem fengu stöður þekkt tengsl við stjórnmálaflokka. Þetta sé fremur hátt hlutfall samanborið við kjósendur í heild en innan við 20 prósent þeirra segjast vera meðlimir stjórnmálaflokka. Hins vegar sé ekki óalgengt í öðrum löndum að á æðstu þrepum skrifræðisins sé flokksaðild útbreidd, jafnvel í ríkjum þar sem pólitísk fyrirgreiðsla er sjaldgæf. Þetta þurfi því ekki út af fyrir sig að vera vísbending um fyrirgreiðslu.

Prófessorinn segir, að enn sé nokkuð um hefðbundna fyrirgreiðslu í stjórnkerfinu, þótt í minni mæli sé en áður. Hún virðist nokkuð algeng á sveitarstjórnarstiginu og eins tengist hún rekstri á persónulegum netum stjórnmálamanna. Í öðru lagi noti flokkarnir „strategískar" stöðuveitingar í vissum mæli til mikilvægra starfa í stjórnsýslunni þar sem þeir vilja halda áhrifum sínum. Loks hafi stjórnmálamenn brugðist við óvissu í starfsumhverfi sínu með þróun samtryggingarkerfis, til dæmis í utanríkisþjónustunni.

Grein Gunnars Helga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert