DV braut gegn siðareglum

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að DV hafi brotið með ámælisverðum hætti gegn siðareglum félagsins með fréttum, sem birtust í janúar sl. þar sem fullyrt var að framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hefði beðið bréfbera í Keflavík að stunda persónunjósnir.

Magnús Guðjónsson, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, kærði DV til siðanefndarinnar fyrir tvær greinar, sem birtust í blaðinu 20. og 23. janúar síðastliðinn, þar sem hann var sakaður um að biðja bréfbera um að stunda persónunjósnir.

Þann 20. janúar 2006 birtist frétt á forsíðu DV undir fyrirsögninni: „Magnús Guðjónsson, forstöðumaður HES. Bað bréfbera í Keflavík að njósna um íbúa. Ólöglegt segir forstjóri Persónuverndar.“ Mynd af Magnúsi fylgdi fyrirsögninni og frekari umfjöllun um málið var inni í blaðinu.

Sama dag og fréttin birtist sendi Magnús blaðamanni DV tölvupóst og kvartaði undan fréttinni sem hann sagði ranga og óskaði leiðréttinga. Þann 23. janúar birtist síðan á forsíðu DV fyrirsögnin: „Magnús H. Guðjónsson. Segir Póstinn bera ábyrgð á njósnum“.

Magnús segir að umfjöllun DV báða dagana hefði verið röng í veigamiklum atriðum röng og að honum hafi verið „lögð orð í munn sem hann sagði aldrei og hann sagður hafa gert tiltekna hluti sem hann aldrei gerði“.

Siðanefnd Blaðamannafélagsins féllst ekki á þau sjónarmið blaðamannsins, að tölvubréf sem Magnús sendi yfirmanni pósthússins í Reykjanesbæ og var kveikjan að fréttinni, hefði gefið tilefni til umræddra fyrirsagan. Í tölvubréfinu bar Magnús upp þá hugmynd að bréfberar punktuðu niður hvar hunda væri að finna í þeirra hverfum eftir kvartanir póstburðarfólks yfir hundum á svæðinu.

Siðanefndin hefur úrskurðað að fyrirsögnin 20. janúar væri verulega villandi. „Framsetning DV í báðum þessum efnum, og sérstaklega forsíðufyrirsagnir 20. og 23. janúar, er því verulega ónákvæm og villandi og ekki í samræmi við 3. grein siðareglna BÍ þar sem kveðið er á um að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu,” segir í úrskurði siðanefndarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert