Lögreglan á Akureyri hefur farið fram á gæsluvarðhald til 6. júní yfir þremur mönnum sem grunaðir eru um að hafa klippt hluta af fingri eins manns og misþyrmt að auki tveimur öðrum mönnum í húsi í miðbæ Akureyrar í gær. Dómari mun taka ákvörðun varðandi gæsluvarðhaldið á morgun. Að sögn Björns Jósefs Arnviðarsonar, sýslumanns á Akureyri, standa yfirheyrslur enn yfir. Þá liggja játningar ekki fyrir.
Björn segir að fleiri hafi verið í húsinu þar sem misþyrmingarnar áttu sér stað utan umræddra þriggja meintra árásarmanna og þeirra sem var misþyrmt. Ekki liggur fyrir um fjölda þeirra svo voru að auki í húsinu en þeir eru sagðir tengjast brotaþolunum. Grunur leikur á því að málið tengist fíkniefnum.
Mennirnir þrír urðu fyrir mismiklum líkamsmeiðingum. Eins og fram hefur komið var garðklippum beitt til þess að klippa hluta af fingri eins mannsins, en um er að ræða litla fingur og var hann tekinn af við fremstu kjúku. Einn er talinn vera nefbrotinn og sá þriðji slasaðist minna.
Ljóst er að a.m.k. hluti árásarmannanna og fórnarlambanna þekktust. Árásarmennirnir eru flestir á þrítugsaldri. Sömu sögu er að segja um fórnarlömbin utan eins manns sem er fimmtugsaldri.
„Við lítum náttúrulega á svona atburð mjög alvarlegum augum, það fer ekki á milli mála. Mennirnir sem liggja undir grun eru þekktir hér fyrir fíkniefnabrot og ofbeldisverk,“ segir Björn.
Aðspurður segir Björn að ekki sé talið á þessu stigi að fleiri aðilar tengist málinu.