Sautján ára gömul íslensk stúlka var stödd í Yogyakarta á eynni Jövu í Indónesíu þegar öflugur jarðskjálfti, sem mældist 6,2 stig á Richter, reið yfir. Stúlkan, Ásta Hrund Guðmundsdóttir, segir mikla eyðileggingu vera í borginni og að mikil ringulreið hafi skapast í kjölfar skjálftans. Samkvæmt nýjustu tölum létu 3068 manns að minnsta kosti lífið, þúsundir slöðust og yfir 200 þúsund manns misstu heimili sín.
Ásta, sem hefur verið sl. níu mánuði í borginni sem skiptinemi, segir að þetta hafi verið mikið áfall. „Í morgun klukkan sex byrjaði allt að hristast [...] Á heimilinu mínu byrjuðu hlutir að detta á gólfið og það var mikið af glerbrotum út um allt, en sem betur fer er húsið sem ég bý í vel byggt og sterkt. Það hrundi því ekki en sumir vina minna voru ekki eins heppnir því húsin þeirra hrundu alveg til grunna,“ sagði Ásta í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Ásta segir öll sjúkrahús vera full af slösuðu fólki. Skortur sé á læknum og hjúkrunarfólki. Þá hafi myndast gríðarlega mikið öngþveiti á götum úti og samgöngur víða lamaðar.
Ásta Hrund segist hafa farið í skólann í morgun en þar var enga kennara að finna. Stuttu síðar hafi fólk byrjað að hrópa og vara við því að flóðbylgja væri á leiðinni, því ættu allir að forða sér frá strandhéruðunum og inn í land. „Allir drifu sig af stað og það var þvílíkt brjálæði á götunum, en svo var ekkert flóð. Það var bara einhver sem „panikaði“,“ segir Ásta.
Hún sagði lögregluna hafa beitt kalltækjum sínum til þess að láta fólk vita að um misskilning hafi verið að ræða, en ljóst hafi verið að fólk hafi verið skelfingu lostið.
Hún segir margar byggingar sem hún hafi farið í að undanförnu hafa hrunið og hún telur sig afar heppna að hafa sloppið jafn vel og raun ber vitni.
Aðspurð um aðra Íslendinga á svæðinu segir Ásta að vinkona hennar búi í annarri borg skammt frá sem hafi sloppið mun betur en Yogyakarta.
Hún segir marga vera heimilislausa og að þeir hafi komið sér upp tjöldum þar sem þeir munu gista í yfir nótt. Þá segir Ásta að ástandið sé hinsvegar að færast í skárra horf, en í upphafi hafi t.a.m. símasamband legið niðri og mun meiri ringulreið verið ríkjandi.