Brutust inn í sumarbústað en skildu eftir myndavél

Brotist var inn í sumarbústað í Vaðnesi um helgina. Lögreglan á Selfossi segir að þeir, sem þar voru á ferð, muni hafa hreiðrað um sig um stund en litlu stolið. Sýnilega hafði verið farið í heitan pott og fólk verið við drykkju. Hústökufólkið skildi eftir myndavél í húsinu og er lögregla að skoða myndir sem sýnilega hafa verið teknar af fólkinu þar sem það sat við drykkju í húsinu. Er verið að bera kennsl á fólkið.

Þá var tveimur plastbátum stolið frá sumarbústað við Apavatn um helgina. Bátarnir fundust fljótlega eftir að leit var gerð að þeim. Annar báturinn hafði brotnað en hinn var óskemmdur. Í bátunum fundust tómar áfengisflöskur og segir lögreglan að það bendi til þess að þeir sem tóku bátanna hafi verið ölvaðir. Skorað er á hvern þann sem eitthvað veit um málið að koma upplýsingum til lögreglu í síma 480 1010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert