Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa ákveðið að mynda meirihluta í Reykjavík. Hinn nýi borgarstjóri Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fundaði með Birni Inga Hrafnssyni á heimili sínu í dag og var niðurstaðan sú að myndaður hefur verið nýr meirihluti. Björn Ingi Hrafnsson verður formaður borgarráðs, en þetta er í fyrsta sinn sem tveir flokkar mynda meirihluta í borgarstjórn.
„Okkar málefnaskrá grundvallast á mjög metnaðarfullri framtíðarsýn þar sem tekið er á brýnustu málum Reykvíkinga á sviði málefna eldri borgara, fjölskyldumála, skipulags-, samgöngu- og lóðamála. Það ríkir mjög gott traust á milli okkar, við erum sammála um það sem þarf að gera og við ætlum að vera dugleg, við ætlum að framkvæma og bæta lífskjörin í borginni á næstu árum," sagði Vilhjálmur og lagði áherslu á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru afar sáttir við þessa niðurstöðu.
Björn Ingi sagði, að nú væri kominn tími á athafnastjórnmál. „Það sem búið er að ákveða einkennist af þeirri jákvæðni sem einkennt hefur viðræður okkar til þessa. Við erum bjartsýnir og viljum hefjast þegar handa."
Fram kom að viðræður flokkanna hófust upp úr klukkan 14 í dag og gengið var frá samstarfinu laust fyrir klukkan 16. Fram kom að bæði Björn Ingi og Vilhjálmur áttu samtöl við forustumenn annarra flokka í borgarstjórn áður en þessi niðurstaða fékkst fram.
„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar en það er mikilvægt að taka ákvörðun um það hið fyrsta vegna þess að óvissan um framtíð innanlandsflugsins er afar slæm fyrir flugið og ferðaþjónustuna," sagði Vilhjálmur á blaðamannafundinum.
Hann tók það einnig fram að það væri rangt að um sýndarviðræður hefði verið að ræða er hann var spurður um viðræðurnar sem hann sleit við Frjálslynda flokkinn.
„Ég verð mjög góður borgarstjóri, ég verð áfram þessi sami gamli Villi, hæverskur og góður kall," sagði Vilhjálmur er hann var spurður um það hvernig borgarstjóri hann verði.
Björn Ingi segir að hann muni nú láta af störfum sem aðstoðarmaður forsætisráðherra en hann var í launalausu leyfi á meðan kosningabaráttan var háð.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, væntanlegur borgarstjóri, er sextugur að aldri og lögfræðingur að mennt. Hann hefur verið borgarfulltrúi í Reykjavík frá árinu 1982 og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 1990. Sambýliskona hans er Guðrún Kristjánsdóttir.