Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sagði á vorþingi þingmannasambands bandalagsins, að Íslendingar væru fullgildir og traustir meðlimir í Atlantshafsbandalaginu, og bandalagið muni bregðast við með viðeigandi hætti ef samningaviðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna leiða ekki til viðunandi niðurstöðu.
De Hoop Scheffer var að svara spurningu, sem Össur Skarphéðinsson, alþingismaður, beindi til hans á þinginu. Össur segist hafa í ræðu sagt að samband Íslendinga og Bandaríkjamanna hefði versnað þar sem Bandaríkjamenn hefðu í reynd brotið varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna með því að tilkynna einhliða niðurstöðu um brottför hersins í miðjum samningaklíðum.
Össur rifjaði upp að tvíhliða samningurinn hefði verið gerður að tilstuðlan Atlantshafsbandalagsins og fyrir þess hönd. Í framhaldinu spurði Össur framkvæmdastjórann hvort NATO myndi hugsanlega koma inn í viðræðurnar ef þær leiddu ekki til niðurstöðu.
Einnig spurði Össur de Hoop Scheffer sérstaklega út í hugmyndir Letta, sem fyrst voru kynntar í bréfi til Íslandsdeildar þingmannasambandsins og síðar reifaðar af þeim í ræðum á þinginu um helgina, en þeir leggja til að NATO taki að sér eftirlit og varnir í lofthelgi ríkja, sem ekki hafa her eða nægilegan búnað til að gera það sjálf. Auk Íslands eru það Eistland, Litháen, Lettland, Slóvenía og hugsanlega Lúxemborg.
Að sögn Össurar svaraði de Hoop Scheffer því, að í fyrsta lagi liti hann ekki svo á að samband Íslendinga og Bandaríkjamanna hefði versnað. Í öðru lagi sagði hann Ísland fullgildan meðlim Atlantshafsbandalagsins og það hefði sömu skyldur gagnvart Íslandi og öðrum ríkjum. „Við munum bregðast við samkvæmt því," hefur Össur eftir framkvæmdastjóranum.
Össur segir að þeir Magnús Stefánsson, alþingismaður, hafi rætt einslega í örstutta stund við de Hoop Scheffer á eftir og þar hafi hann sagst von bráðar myndu koma til Íslands vegna málsins og eiga viðræður við íslenska ráðamenn. „Hann var nokkuð hulduhrútslegur og sagðist hafa ýmislegt að segja sem hann gæti ekki sagt opinberlega," segir Össur á heimasíðu sinni.