Heimssamtök kvikmyndaréttarhafa (MPA) hafa tilkynnt um ráðningu Hallgríms Kristinssonar í embætti framkvæmdastjóra og svæðisstjóra yfir baráttunni gegn ólöglegri dreifingu myndefnis í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.
Sem svæðisstjóri mun Hallgrímur stjórna samvinnu við samstarfsaðila MPA á hverjum stað og mun vinna náið með 35 samtökum í um 40 löndum, sem vinna gegn ólöglegri dreifingu myndefnis á staðarvísu, við framkvæmd almennra aðgerða á öllu svæðinu til að stemma stigu við slíkri dreifingu. Hann mun stýra starfinu frá höfuðstöðvum MPA í Brussel í Belgíu, en undir þá skrifstofu heyrir Evrópa, Miðausturlönd og Afríka. Stærstu framleiðendur kvikmynda í heiminum standa að MPA.
Hallgrímur Kristinsson hefur MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík (2004) og B.A. gráðu í Organizational Communication frá George Mason University í Virgíníu í Bandaríkjunum (1996). Hallgrímur hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri SMÁÍS, sem eru hagsmunarsamtök kvikmynda- og sjónvarpsgeirans á Íslandi. Áður starfaði Hallgrímur m.a. sem framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar, var framkvæmdastjóri dagskrársviðs Gagnvirkrar miðlunar, framkvæmdastjóri Opinnar Miðlunar auk þess að starfa í nokkur ár hjá Sam-Félaginu, fyrst hjá Sambíóunum og síðar hjá Sam-Myndböndum.
Hallgrímur er kvæntur Adelu Halldórsdóttur, starfsmanni Glitnis, og eiga þau þrjá syni.