Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur úrskurðað að dómkvaddir sérfræðingar skuli meta hvort hafið sé yfir vafa að tölvupóstar sem lagðir hafa verið fram sem sönnunargögn í Baugsmálinu séu ófalsaðir, að beiðni verjenda sakborninga.
Í úrskurði dómsins frá því í gær segir m.a. að þó að annað mat hafi verið unnið fyrir settan ríkissaksóknara á þessum gögnum hafi falsleysi gagnanna ekki verið kannað. Féllst dómari þannig á rök verjenda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Kristínar Jóhannesdóttur og Tryggva Jónssonar, en hafnaði málflutningi setts ríkissaksóknara í málinu, sem taldi rétt að fjallað yrði um fals eða falsleysi fyrir dómi en ekki í sérstakri matsgerð.
Nánar er greint frá málinu í Morgunblaðinu í dag.