Bjóða 12 þúsund króna hækkun á mánuði

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, …
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, kynntu tillögur samtakanna í dag. mbl.is/Eggert

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fyrir Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess hugmynd að samkomulagi í ljósi fyrirsjáanlegra vandræða á vinnumarkaðnum á næstu mánuðum og misserum, vegna þess að verðbólgan verður fyrirsjáanlega umfram þau viðmið, sem sett eru í gildandi kjarasamningum. Ef samkomulag næst á grundvelli þessarar hugmyndar munu samningsbundnir launataxtar hækka um sérstakan taxtaviðauka að upphæð 12.000 krónur á mánuði.

Gert er ráð fyrir því að í þeim tilvikum, þar sem kjör eru samsett af launataxta og persónubundnum viðbótargreiðslum, muni þær greiðslur lækka á móti taxtaviðaukanum. Segja samtökin að starfsfólk, sem býr við betri kjör samkvæmt ráðningarsamningi en kjarasamningar tryggja, eigi almennt ekki tilkall til umrædds taxtaviðauka. Starfsfólki fyrirtækja, sem einungis hefur notið almennrar launahækkunar undanfarið ár, verður þó tryggð samtals 4,5% launahækkun miðað við síðustu 12 mánuði, þ.e. allt að 2% hækkun launa til viðbótar við almenna launahækkun. Segja Samtök atvinnulífsins, að þessari aðgerð sé því einkum ætlað að koma til móts við þá sem byggja laun sín á launatöxtum eða hafa ekki notið launaskriðs undanfarið ár.

Á móti hækkun launa nú kemur að forsendunefnd kjarasamninga telst hafa lokið störfum vegna mats á þróun verðbólgu og samningar verða því ekki uppsegjanlegir frá og með næstu áramótum heldur gilda a.m.k. út árið 2007.

Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu átt í óformlegum viðræðum við ýmsa forystumenn viðsemjenda sinna og þessi hugmynd að samkomulagi er lögð fram í kjölfar þeirra.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kynnti tillögurnar á blaðamannafundi í dag, og sagði að það væri sameiginlegt hlutverk SA og verkalýðsfélaga að finna leið út úr þessum vanda. SA hefði tekið það að sér að setja þessa hugmynd niður á blað en ekki væri um að ræða hefðbundið tilbið og aðilar væru heldur ekki að togast á um hluti heldur að reyna að finna sameiginlega niðurstöðu.

Í greinargerð Samtaka atvinnulífsins, sem lögð var fram á fundinum, segir að það hafi orðið niðurstaða óformlegra viðræðna milli SA og forystumanna viðsemjenda samtakanna að þau leggja nú fram formlega hugmynd að samkomulagi og freista þess að grípa strax inn í málin með breytingum á kauptöxtum. Hinn kosturinn sé að bíða, sem líklega leiði til þess að allir kjarasamningar SA, og einnig ríkisins, við verkalýðsfélögin verða lausir um áramót. Þá hæfist vinna við nýja samninga við skilyrði sem geri það illframkvæmanlegt að ná skynsamlegri niðurstöðu. Mjög erfitt gæti reynst að hafa stjórn á þróun mála á vinnumarkaðnum með yfir 140 kjarasamninga lausa á samningssviði SA í aðdraganda kosninga til Alþingis og líkur séu á því að niðurstaðan skapaði langtímavanda í íslensku efnahagslífi.

Segjast Samtök atvinnulífsins ganga út frá því að ASÍ og landssambönd þess muni nota næstu tvær vikur til þess að fara yfir hugmyndir samtakanna og í framhaldi af því muni reyna á það hvort samkomulag næst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert