Hinn árlegi Blómadagur Skólavörðustígsins verður haldinn á morgun, en þetta er í þriðja sinn sem Blómadagurinn er haldinn hátíðlegur við Skólavörðustíginn. Verða húsin við götuna skreytt á viðeigandi hátt, en verslanir verða með blómaskreytingar í gluggum.
Að venju verða blómagjafir fyrir gesti og gangandi, en ávextir og jafnvel grænmeti handa börnunum. Blómum og ávöxtum verður dreift til gesta úr sérstökum hjólbörum og kemur fram í tilkynningu að íbúar og rekstraraðilar njóti vinskapar Blómabænda og Banana hf.
Tema dagsins er náttúruvænar vörur og náttúrulegt umhverfi. Verslunin Yggdrasill heldur upp á 20 ára afmæli sitt á Blómadaginn og þar verður haldin vegleg afmælisveisla.
Meðal þeirra sem leggja hönd á plóginn með ýmiss konar uppákomum verða börn frá Waldorf-skólanum með föndur og leiki, gjörningur Hins Hússins og Afró-dans frá Kramhúsinu. Sérstök áhersla verður lögð á hið náttúruvæna í umhverfinu.