Halldór sagður ætla að segja af sér

Halldór Ásgrímsson.
Halldór Ásgrímsson. mbl.is/Kristinn

Fullyrt var í fréttum NFS í kvöld að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefði sagt nánum samstarfsmönnum sínum að hann hefði ákveðið að segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins og ráðherraembætti. Útvarpið sagði einnig frá því í kvöld, að orðrómur væri á kreiki um að Halldór hyggðist hætta sem formaður flokksins. Fram kom að rætt væri um að Finnur Ingólfsson, stjórnarformaður VÍS, væri líklegur arftaki Halldórs.

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði hins vegar í fréttum Sjónvarpsins, að hann hefði ekkert heyrt af þessum vangaveltum og sagðist því ekkert vita um hvort þær væru réttar.

Halldór sagði í sjónvarpsumræðum eftir að úrslit kosninganna á laugardag lágu fyrir, að fylgistap Framsóknarflokksins víða um land í kosningunum í dag væri vissulega vonbrigði og hann sagðist taka á sig vissa ábyrgð í því sambandi. Hann vildi ekki útskýra nánar hvað hann ætti við.

Í gær var haldinn fundur landsstjórnar Framsóknarflokksins og var þar ákveðið að kalla saman miðstjórn flokksins eftir rétta viku. Þar á að fara yfir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar og gengi flokksins í kosningunum en flokkurinn tapaði fylgi í nokkrum stórum sveitarfélögum. Halldór Ásgrímsson vildi ekki ræða við fjölmiðla að fundinum loknum.

Nýlokið er fundi formanna þingflokka og forseta Alþingis um framhald þingstarfa. Gert er ráð fyrir, að sumarþinginu ljúki á morgun og lokið verði við að afgreiða þau frumvörp, sem afgreidd hafa verið úr nefndum til 2. og 3. umræðu að undanskildum frumvörpum um Ríkisútvarpið hf. og nýsköpunarmiðstöð verði frestað til haustsins. Óljóst er þó enn hvort svonefndar eldhúsdagsumræður, sem venjulega fara fram í lok þings, verða á laugardag eða þriðjudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert