Íslendingum færðar þakkir með undirskriftasöfnun

Gintautas Babravisius, Arturas Zuokas borgarstjóri Vilnius og Ólafur Ragnar Grímsson …
Gintautas Babravisius, Arturas Zuokas borgarstjóri Vilnius og Ólafur Ragnar Grímsson í ráðhúsi Vilnius í dag.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók, við hátíðlega athöfn í ráðhúsi Vilnius, höfuðborgar Litháen, á móti tilkynningu um að hafin væri undirskriftasöfnun í Litháen til að þakka íslensku þjóðinni fyrir að hafa verið fyrst allra til að viðurkenna sjálfstæði Litháen.

Tilkynninguna flutti Gintautas Babravisius, talsmaður hóps almennra borgara, sem ákvað að beita sér fyrir þessari undirskriftasöfnun.

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta segir, að markmiðið sé að safna 300 þúsund nöfnum, einu fyrir hvern Íslending. Áformað er að afhenda undirskriftirnar á Íslandi í ágústmánuði, en þá eru liðin 15 ár frá því að Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða sjálfstæði Litháen.

Jafnframt er að því stefnt að efna til tónleika á Íslandi þar sem fram kæmu litháískir listamenn.

Við athöfnina í ráðhúsi Vilnius lýsti Arturas Zuokas borgarstjóri eindregnum stuðningi við söfnun undirskriftanna og taldi að slík þakkargjörð til Íslendinga væri afar viðeigandi.

Í ráðhúsi Vilnius í gær var einnig undirrituð yfirlýsing, þar sem Óslóborg staðfestir þátttöku sína í verkefninu Ungmenni í Evrópu – Markvisst forvarnastarf. Ósló verður þar með ellefta borgin sem tekur þátt í þessu viðamikla verkefni, sem byggt er á rannsóknum íslenskra fræðimanna og reynslu Reykjavíkurborgar á þessu sviði. Forseti Íslands er verndari verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert