VG í Reykjavík mótmælir aðild Orkuveitunnar að viljayfirlýsingu

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs í Reykjavík hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna undirritunar viljayfirlýsingar Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls um orkuöflun til álvers í Helguvík. Í yfirlýsingunni eru ítrekuð mótmæli VG gegn áformum Orkuveitunnar um að útvega raforku til álversins.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Vinstrihreyfingin–grænt framboð í Reykjavík ítrekar mótmæli sín gegn áformum Orkuveitu Reykjavíkur um að útvega raforku til álvers í Helguvík. Slík áform kalla á jarðvarmavirkjanir á afar viðkvæmum svæðum á Reykjanesi, við Trölladyngju, í Brennisteinsfjöllum eða jafnvel í Kerlingafjöllum. Virkjanir á þessum svæðum stefna í voða náttúruverðmætum sem nær væri að vernda til framtíðar.

    Á fundi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. júní 2005 var gerð bókun varðandi áform um álver í Helguvík. Í bókuninni lýsti stjórn OR því yfir að orkusala fyrirtækisins til stóriðju yrði skoðuð með heildstæðum hætti.  Við það hefur ekki verið staðið, heldur hefur þvert á móti verið haldið áfram að kynda undir væntingum álfyrirtækja um stórfellda orkusölu. Fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar hefur lagt á það áherslu að ákvarðanir um orkusölu til stóriðju verði teknar til umfjöllunar á hinum pólitíska vettvangi í borgarstjórn Reykjavíkur. Stjórnin hefur ekki fallist á þessi sjónarmið og hefur farið sínu fram í krafti stuðnings annarra fulltrúa í stjórn fyrirtækisins.

    Vinstrihreyfingin – grænt framboð í Reykjavík mótmælir þessum áformum harðlega og telur þau stangast á við markaða stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur um sjálfbæra þróun og vistvæna höfuðborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert