Alþingi samþykkti í dag breytingartillögu við frumvarp um olíugjald og þurfa björgunarsveitir ekki að greiða sérstakt kílómetragjald af bílum í þeirra eigu eins og upphaflega stóð til. Slysavarnafélagið Landsbjörg stóð fyrir mótmælum við Alþingishúsið í morgun vegna frumvarpsins eins og það lá þá fyrir Alþingi.
Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi lögðu breytingartillöguna fram nú síðdegis við þriðju umræðu um málið. Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir því, að nota mætti litaða dísilolíu á bíla björgunarsveita en en akstursmælar yrðu settir í bílana og innheimt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra.
Fram kom að með þessari breytingu væri verið að viðurkenna sérstöðu björgunarsveita en breytingartillagan var samþykkt með 48 atkvæðum gegn atkvæði Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks.