Fjórir þingmenn lögðu fram á Alþingi tillögu um að þrátt fyrir algjört reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum verði reykingar leyfðar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á þessum sömu stöðum. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Tillagan var felld í atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær.
Tillagan var lögð fram sem breytingartillaga við frumvarp heilbrigðisráðherra um að reykingar í þjónusturými veitinga- og skemmtistaða verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007.
Í tillögu þingmannanna er lagt til að reykingasvæði verði aðgreind frá öðrum rýmum staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki. Þá er lagt til að sala eða afgreiðsla veitinga verði ekki heimil á svæðunum þar sem reykingar verði leyfðar.
Meðflutningsmenn tillögunnar eru Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, og Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingu. Birgir Ármannsson og Björgvin G. Sigurðsson greiddu síðan atkvæði gegn lögunum í heild ásamt Jóni Gunnarssyni, en þau voru samþykkt með 42 atkvæðum gegn þremur.