Fjórir hjólreiðamenn lögðu í nótt upp frá Reykjanesbæ í hringferð um Ísland á reiðhjólum. Fjórmenningarnir ætla 1550 kílómetra leið á 10 dögum með það markmið að safna fé fyrir langveik börn á Íslandi. Fjármunirnir sem safnast verða afhentir Umhyggju þegar hjólreiðakapparnir koma til baka til Reykjanesbæjar.
Þeir fjórir sem leggja þá þrekraun að baki að hjóla hringinn eru þeir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, Jóhannes A. Kristbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, Júlíus Júlíusson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og Gestur Pálmason, lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli.
Þeir hafa æft stíft fyrir ferðalagið og fóru m.a. 25 km. hring um Reykjanesbæ, Garð og Sandgerði í gær. Í nótt hófst svo fyrsti hluti ferðarinnar um Ísland. Lagt var upp frá Reykjanesbæ kl. 3 í nótt og fyrsta stopp áætlað á Selfossi fyrir hádegi í dag á hvítasunnudegi. Þar ætlaði slökkviliðsstjórinn á Selfossi að taka á móti mönnum. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga verði lokið við Hótel Rangá síðdegis. Þá verður fyrsti áfangi metinn og lagt á ráðin um þann næsta.
Hópurinn gerir ráð fyrir að hjóla 150-200 km á dag. Lengsti áfanginn verður þegar hjólað verður frá Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Farið verður um suðurfirði Austfjarða, til Reyðarfjarðar og þaðan á Egilsstaði. Þaðan verður farið um Öræfi og sem leið liggur á Akureyri. Hópurinn gerir ráð fyrir að vera á Akureyri á Sjómannadaginn. Það verður jafnframt eini frídagurinn í ferðinni. Frá Akureyri verður farið um þjóðveg 1 áfram og stefnt á að vera í Reykjanesbæ miðvikudaginn 14. júní.
Hjólreiðamennirnir fjórir hafa fylgd þjónustubifreiðar sem Almannavarnir á Suðurnesjum leggja til.
Sparisjóðurinn í Keflavík er aðalstyrktaraðili ferðarinnar og fjárgæsluaðili söfnunarinnar. Fjölmargir aðrir aðilar leggja verkefninu lið á einn eða annan hátt. Á vef Víkurfrétta er greint frá ferðinni í máli og myndum. Umfjöllun um verkefnið má nálgast á slóðinni http://vf.is/hjolad. Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur við Sparisjóðinn í Keflavík. Númer hans er 1109-05-411115 og kennitalan er 610269-3389.
Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins. Einnig eru félög og hópar foreldra langveikra barna í félaginu.