Kæra vegna aðbúnaðar hrossa í Svarfaðardal

Hrossaeigandi í Dalvíkurbyggð hefur verið kærður til héraðsdýralæknis vegna aðbúnaðar hrossa og óþrifnaðar í hesthúsi í Svarfaðardal. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins, að hestarnir hafa ekki farið undir bert loft svo mánuðum skiptir og í hesthúsinu er margra mánaða tað á gólfi sem nær sums staðar í stallhæð.

Sjónvarpið vitnaði í bréfi héraðsdýralæknis til eiganda hestanna þar sem segir að í húsinu séu fjórir graðfolar og tveir geltir folar, allir gengnir úr hárum og í þokkalegum holdum. Folarnir hafi ekki farið undir bert loft sem mánuðum skiptir, en verið hleypt út í innanhúss reiðgerði nokkuð reglulega til þjálfunar, að sögn eigandans.Héraðsdýralæknir segir að í húsinu sé margra mánaða tað á gólfi og nái sums staðar í stallhæð. Taðið sé fremur þurrt og hrossin þokkalega hrein.

Gerð er krafa um að folarnir verði komnir út undir bert loft eigi síðar en um hvítasunnuhelgina og að húsið verði hreinsað af taði innan tilskilins tíma. Í gær hafði eigandinn ekki orðið við þessum kröfum að sögn Sjónvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert