"Það verður miðstjórnarfundur á föstudaginn og flokksþing í haust. Mér finnst ekkert ólíklegt að það verði haldið fyrr, að framsóknarmenn segi að þeir geti ekki búið við þessa óvissu. Það er alltaf vont þegar beðið er eftir ákvörðunum og átök halda áfram," sagði Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, í framhaldi af ríkisstjórnarfundi í gær.
Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, var farinn að ræða mögulega afsögn sína sem forsætisráðherra og formaður flokksins við nána samstarfsmenn sína fyrir um tveimur mánuðum. Hann tók þó ekki endanlega ákvörðun fyrr en um liðna helgi.
Finnur Ingólfsson, stjórnarformaður VÍS og fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, segir það ljóst að hann hyggi ekki á endurkomu í stjórnmál. Það hafi verið rætt undanfarið, en af því verði ekki úr þessu.
Valgerður Sverrisdóttir viðskipta- og iðnaðarráðherra sagði í viðtali í Ríkisútvarpinu í gærmorgun að hún treysti ekki Guðna Ágústssyni til að taka við formennsku í flokknum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins urðu hörð viðbrögð í flokknum við þessum orðum Valgerðar, en Halldór Ásgrímsson hafði á fundi landsstjórnar á mánudag hvatt menn til að standa saman í því starfi sem væri framundan við að efla flokkinn á ný.
Flest bendir til að Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra muni bjóða sig fram í embætti formanns, en vel er hugsanlegt að fleiri blandi sér í baráttuna.