Geir hvattur til að draga úr útgjöldum ríkisins

Breska fjármálablaðið Financial Times segir að Geir H. Haarde, væntanlegur forsætisráðherra Íslands, sé hvattur til að sporna gegn verðbólgu og grípa til annarra aðgerða til að draga úr líkum á að íslenska hagkerfið fái harða lendingu eftir að hafa flogið hátt á undanförnum misserum.

„Þetta snýst um það hve hratt er undið ofan af þessu öllu," hefur blaðið eftir Paul Rawkins, yfirmanni greiningardeildar matsfyrirtækisins Fitch, sem hefur breytt horfum um lánshæfismat íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Matsfyrirtækið Standard & Poor's gerði slíkt hið sama sl. mánudag.

Blaðið segir að hagfræðingar, sérfræðingar og fulltrúar atvinnulífsins hvetji Geir til að draga hratt úr ríkisútgjöldum til framkvæmda á borð við vega, brúa og annarra mannvirkja. M.a. er haft eftir Gústaf Adolf Skúlasyni hjá Samtökum atvinnulífsins að stjórnvöld verði að draga sama seglin og frekari vaxtahækkanir séu þýðingarlausar.

FT segir að Fitch telji að verðbólguþrýstingurinn á Íslandi muni á endanum leiða til þess að aðlögunin verði sársaukafull. Erlendir sérfræðingar bendi hins vegar á, að þrátt fyrir tímabundið ójafnvægi sé íslenska hagkerfið sterkara en margir telji. Þeir benda á að meirihluti tekna íslenskra fyrirtækja komi frá útlöndum og það verji hagkerfið gegn innlendum áföllum. Atvinnuleysi sé nánast ekkert og íslenskum bönkum hafi gengið vel að fjármagna starfsemi sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert