Margar kvartanir hafa borist Neytendasamtökunum vegna HM

Frá æfingu landsliðs Svía í knattspyrnu.
Frá æfingu landsliðs Svía í knattspyrnu. Reuters

Þeir, sem hafa verið í viðskiptum við Símann og 365 miðla með erlendar stöðvar, fá ekki að njóta útsendinga frá leikjum Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu þar sem lokað verður fyrir útsendingar erlendra sjónvarpsstöðva sem sýna leikina. Þetta þykir mörgum viðskiptavinum óeðlilegt og virðist eingöngu vera íslenskt fyrirbæri á ferð, að því er segir á heimasíðu Neytendasamtakanna (NS), en fjölmargir neytendur hafa kvartað yfir því að þeim sé ekki gert auðvelt að njóta sjónvarpsútsendinga á leikjum HM.

NS segja margar kvartanir hafa borist yfir því að áskrifendur séu sviptir aðgangi að útsendingum þó svo þeir greiði fyrir fullan aðgang að sínu sjónvarpskerfi. Einnig er kvartað yfir ósanngjarnri verðlagningu hjá Sýn á meðan á HM stendur. Þetta er flókið mál, að sögn NS, og snýst um hver hefur sýningarréttinn af leikjum HM 2006.

Þá kemur einnig fram að mánaðargjaldið á Sýn fyrir HM-tímabilið hækkar upp úr öllu valdi, eins og segir á síðu NS, og er í engu samræmi við aðra mánuði. Möguleiki á að fá almennt mánaðargjald er að taka áskrift í sex mánuði eða lengur. Neytendasamtökin hafa óskað eftir sjónarmiðum fyrirtækjanna sem tengjast þessu máli.

Eftirfarandi svör bárust NS frá fyrirtækjum sem liggja undir ásökunum:

365 miðlar:

„Forsaga HM 2002 og 2006 á Íslandi er sú, að RÚV gaf frá sér réttinn af keppnunum sökum mikils kostnaðar fáeinum mánuðum fyrir fyrsta leik árið 2002. Sýn keypti réttinn af báðum keppnum til að tryggja það að HM væri í boði fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur og vakti mikla lukku á þeim tíma. Skv. samningi eru opnunarleikur, undanúrslit og úrslit sýnd í opinni dagskrá á Sýn.

Sýningarréttir sem þessir tryggja það að aðrir söluaðilar að sjónvarpsefni í sama landi geti ekki selt og/eða sýnt frá þessu móti. Dæmi um þetta er t.d. formúlan sem Ríkissjónvarpið er með sýningarrétt á. Þegar formúlan er sýnd á erlendum rásum sem m.a. eru aðgengilegar hjá Skjánum og Digital Íslandi er útsendingin svert, eða án hljóðs og myndar. Sama er gert fyrir HM í knattspyrnu á Íslandi og er gert að kröfu söluaðila okkar.“

Síminn:

„Skýringin er einföld. Sýn er með útsendingarréttinn á HM á Íslandi og öðrum sjónvarpsrásum er því óheimilt að sýna frá keppninni hér á landi. Síðan er það ákvörðun hverrar sjónvarpsrásar fyrir sig hvernig þær bregðast við þegar sýningarréttur á efni þeirra nær ekki til allra dreifingarsvæða. Norrænu rásirnar hafa tekið þá ákvörðun að sýna ekki frá HM á Íslandi, væntanlega til að forðast málarekstur. Þar sem Síminn sinnir aðeins endursölu erlendu sjónvarpsrásanna getur hann engin áhrif haft á dagskrárval þeirra. Þetta eru einu tilvikin sem koma upp á nokkurra ára fresti um stórviðburði sem við verðum að blokkera út. Þess má geta að 365 verður einnig að blokkera út sömu dagskrárliði á stöðvunum á Fjölvarpinu þótt þeir séu með réttinn til sýninga á Sýn.“

Neytendasamtökin hafa haft samband við Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið vegna málsins og er það til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Beðið er eftir úrskurði en HM 2006 byrjar á morgun.

Ólík aðstaða sjónvarpsáhorfenda skv. upplýsingum frá NS.
Ólík aðstaða sjónvarpsáhorfenda skv. upplýsingum frá NS.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert