Þrír nýir ráðherrar koma inn í ríkisstjórnina frá Framsóknarflokki. Halldór Ásgrímsson, fráfarandi forsætisráðherra, tilkynnti þetta eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í dag. Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri, verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra en Valgerður Sverrisdóttir tekur við utanríkisráðuneytinu og verður þar með fyrsta konan til að gegna embætti utanríkisráðherra. Jónína Bjartmarz verður umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda. Magnús Stefánsson verður félagsmálaráðherra en Jón Kristjánsson, félagsmálaráðherra, hættir sem ráðherra að eigin ósk.
Framsóknarflokkurinn tekur að nýju við þeim ráðherraembættum, sem hann lét af hendi þegar Halldór Ásgrímsson tók við embætti forsætisráðherra, það er utanríkisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Ný ríkisstjórn Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, tekur við á ríkisráðsfundi á fimmtudag. Þær breytingar verða á ráðherraliði Sjálfstæðisflokks, að Sigríður Anna Þórðardóttir lætur af embætti umhverfisráðherra og Geir verður forsætisráðherra en hann hefur verið utanríkisráðherra.
Geir H. Haarde sagði, að engar breytingar yrðu á stjórnarstefnunni við þessar breytingar þar sem um væri að ræða sömu stjórnina í pólitískum skilningi enda byggði hún á sama stjórnarsáttmálann og gerður var í upphafi kjörtímabilsins og stórum hluta væru ráðherrarnir þeir sömu.
Halldór tilkynnti jafnframt, að Sæunn Stefánsdóttir tæki við þingsæti hans í haust en hann sagðist ætla að segja af sér þingmennsku eftir að nýr formaður Framsóknarflokksins hefur verið kjörinn.
Jón Sigurðsson sagði, þegar hann var spurður hvernig honum hugnaðist að hætta í Seðlabankanum og taka við ráðherraembætti: „Allir verða að gera skyldu sína."
Halldór sagði um þessar breytingar, að þeir Jón Kristjánsson hefðu staðið hvor við annars hlið í áratugi og hann hefði nú ákveðið að draga sig í hlé og stíga út úr ríkisstjórninni um leið og hann. Sagði hann að Jón hefði staðið sig frábærlega sem heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra og áður sem þingmaður og formaður fjárlaganefndar.
Halldór sagði að Jón Sigurðsson hefði gegnt störfum fyrir Framsóknarflokkinn alla tíð. Sagði Halldór að þeir Jón hefðu þekkst frá því í gagnfræðaskóla. Jón hefði byrjað sinn feril með því að verða ritstjóri Tímans og það hefði komið þannig til, að nokkrir ungir framsóknarmenn fóru á fund Ólafs Jóhannessonar, þáverandi formanns Framsóknarflokkksins og báðu hann að beita sínum áhrifum til að Jón yrði ritstjóri Tímans. Jón hefur starfað lengi fyrir flokkinn varðandi sjávarútvegsmál og Evrópumál. „Við teljum mikinn styrk að því að fá hann inn í ríkisstjórnina og hann er sérfræðingur í efnahagsmálum og bankamálum, fyrir utan að vera sérfræðingur í mörgu öðru," sagði Halldór.
Þá sagði Halldór að Valgerður Sverrisdóttir hefði mikla reynslu af erlendum samskiptum og því vel undir það búin að taka við embætti utanríkisráðherra. Halldór sagði að Jónína Bjartmarz hefði verið lengi í þinginu og vel undir það búin að taka við sínum ráðherraembættum. Magnús Stefánsson væri formaður fjárlaganefndar og verið lengi í sveitarstjórnum, þar á meðal sveitarstjóri í Grundarfirði og því hefði hann mikla reynslu á þessu sviði.
Halldór sagði að mikil eindrægni hefði verið um þessa niðurstöðu í þingflokk Framsóknarflokksins.