Samráðsþing um loftslagsbreytingar hefst í Reykjavík á morgun

Ólafur Ragnar Grímsson kynnir þing um loftslagsbreytingar, sem hefst á …
Ólafur Ragnar Grímsson kynnir þing um loftslagsbreytingar, sem hefst á morgun. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands kynnti í dag samráðsþing um loftslagsbreytingar sem hefst í Reykjavík á morgun og sótt verður af tæplega 200 fulltrúum 100 stórfyrirtækja, háskóla og vísindastofnana. Einnig kynnti hann víðtækt samstarf íslenska vísindasamfélagsins og ýmissa virtustu háskóla veraldar, fund ungra leiðtoga á alþjóðavettvangi sem verður á Íslandi í haust og fyrirlestur dr Pachauri forseta alþjóðlegs vísindaráðs um loftslagsbreytingar.

Fram kom á blaðamannafundi, að Ólafur Ragnar hefur undanfarið beitt sér fyrir samræðum áhrifafólks, vísindamanna og sérfræðinga í loftslagsbreytingum. Sérstök áhersla hafi verið lögð á glímuna við hlýnun jarðar og að tengja Ísland við lausnir á því sviði. Í þessum samræðum taka m.a. þátt ýmsir fremstu vísindamenn veraldar og áhrifamenn í alþjóðlegu viðskiptalífi.

Á morgun hefst á Nordica hótelinu alþjóðlegt samráðsþing um loftslagsbreytingar. Þingið sækja tæplega 200 fulltrúar um hundrað stórfyrirtækja, háskóla og vísindastofnana víða að úr veröldinni, m.a. frá Bandaríkjunum, Evrópu, Indlandi og Kína. Markmið þingsins er að reyna á næstu misserum að ná samstöðu um hvaða leiðir séu vænlegar til að mæta orkuþörf framtíðar á þann hátt að hvorki loftslagi né lífríki jarðar sé ógnað. Meðal þeirra fyrirtækja sem taka þátt í samráðsþinginu eru ýmis þekktustu fyrirtæki heims á sviði orkuframleiðslu, iðnaðar, fjármála, tækni og fleiri greina.

Forseti Íslands átti ásamt Jeffrey Sachs hagfræðingi, forstöðumanni Jarðarstofnunarinnar við Columbia háskólann í Bandaríkjunum og sérstökum ráðgjafa Kofi Annan, þátt í að stofna til samráðsþingsins sem á ensku ber heitið Global Roundtable on Climate Change. Þingið mun starfa í þrjú ár og eiga tvo fundi á ári hverju. Í tengslum við þingið starfa sérstakar vinnustofur vísindamanna og hefur Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor við Háskóla Íslands tekið þátt í starfi þeirra.

Að loknu samráðsþinginu efnir Háskóli Íslands til málþings í Hátíðarsal háskólans miðvikudaginn 14. júní. Málþingið er öllum opið og hefst kl. 9. Þar munu vísindamenn og sérfræðingar fjalla um hreina orkugjafa framtíðar, m.a. vetni og jarðhita, auk þess sem nýstárlegar hugmyndir íslenskra og erlendra vísindamanna um bindingu koltvíoxíðs djúpt í jörðu verða kynntar. Forseti Íslands mun draga saman meginniðurstöður málþingsins í lok þess.

Annar þáttur í viðleitni forsetans á vettvangi umræðna og aðgerða vegna loftslagsbreytinga eru fyrirlestrar heimsþekktra vísindamanna í fyrirlestraröðinni Nýir straumar sem forsetinn stofnaði til fyrr á þessu ári. Dr. Rajendra K. Pachauri forseti Alþjóðlegs vísindaráðs um loftslagsbreytingar mun flytja þriðja fyrirlesturinn í þessari röð næstkomandi miðvikudag 14. júní kl. 13:15 í Öskju, húsi Náttúrufræðideildar Háskóla Íslands, og er sá fyrirlestur öllum opinn. Fyrirlesturinn ber heitið „Sjálfbær veröld: Ný stefna og tæknilausnir”. Alþjóðlega vísindaráðið um loftslagsbreytingar (IPCC) var sett á stofn af ríkjum heims til að meta hættuna á loftslagsbreytingum og skýrslur þess hafa lagt grundvöll að alþjóðlegum samningum. Um 3000 vísindamenn víða að úr veröldinni taka þátt í störfum vísindaráðsins og hefur dr. Pachauri stýrt því starfi.

Þriðji þátturinn er að bjóða til Íslands í haust hópi ungra leiðtoga á alþjóðavettvangi úr viðskiptum, þjóðmálum, vísindum og tækni sem munu í boði forsetans efna hér til samráðsfundar um orkugjafa framtíðarinnar. Til hópsins, sem ber heitið Young Global Leaders, var stofnað á vettvangi Davos ráðstefnunnar svonefndu. Markmiðið er að kanna hvernig hægt er að sameina ólíka krafta til að ná árangri í glímunni við loftslagsbreytingar og stuðla að uppgötvunum sem skapað geti nýja orkugjafa í framtíðinni. Samráðsfundinn situr einnig hópur fjárfesta sem beita sér í þágu mikilvægra þjóðfélagsverkefna og er fyrirhugað að leggja grundvöll að þróun verkefna í orku- og umhverfismálum.

Fjórði þátturinn er að koma á víðtækri samvinnu milli íslenska vísindasamfélagsins og ýmissa virtustu háskóla veraldar. Nú þegar hefur verið gengið frá samkomulagi milli Columbia háskólans í Bandaríkjunum og Háskóla Íslands sem undirritað verður þriðjudaginn 13. júní kl. 12:15 á Nordica hótelinu. Fjölmiðlum er heimilt að vera viðstaddir þá undirritun. Í síðasta mánuði var undirritaður samningur milli Ohio State University, sem er einn stærsti háskóli Bandaríkjanna, og þriggja íslenskra háskóla, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Landbúnaðarháskólans, um rannsóknir á landgræðslu til að draga úr hættum á loftslagsbreytingum.

Auk þessara fjögurra þátta hefur Rannsóknaþing Norðursins fjallað ítarlega um breytingar á umhverfi og loftslagi á norðurslóðum en það var stofnað árið 2000 á grundvelli tillagna sem forseti Íslands flutti í ræðu í háskólanum í Rovaniemi í Finnlandi. Rannsóknarþing Norðursins kemur næst saman í byrjun október í Finnlandi og Svíþjóð. Aðalskrifstofa þess er í höndum Háskólans á Akureyri og koma þátttakendur frá öllum Norðurlöndum, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Á norðurslóðum gætir áhrifa loftslagsbreytinga meira en í öðrum hlutum heims, hlýnun er þar mun hraðari en annars staðar og bráðnun jökla til vitnis um örar breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka