Á þriðja hundrað konur á öllum aldri tóku þátt í kvennahlaupi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands á Ísafirði, en hlaupið var haldið um land allt á laugardag. Elsti þátttakandinn var Torfhildur Torfadóttir, en hún er fædd 24. maí 1904 og sú elsta til að taka þátt í hlaupinu svo vitað sé. Yngstu þátttakendurnir voru nokkurra mánaða og fylgdu mæðrum sínum í vagni.
Konurnar byrjuðu á að hita upp við íþróttahúsið á Torfnesi. Hægt var að velja um þrjár vegalengdir, 2,5 km, 5 km og 7 km. Blakfélagið Skellurnar á Ísafirði stóð fyrir kvennahlaupinu sem haldið var á Ísafirði í 17. sinn. Áætlað er að á bilinu 16-17 þúsund konur hafi tekið þátt á yfir 90 stöðum á landinu.