Borgarstjóri kosinn í dag

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, tekur formlega við embætti borgarstjóra í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Aukafundur borgarstjórnar Reykjavíkur hefst kl. 13 eftir hádegi. Þar fer fram kosning í ýmis embætti, nefndir og ráð á vegum borgarinnar.

Meðal annars verður nýr borgarstjóri kosinn til loka kjörtímabilsins. Þá fer fram kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og tveggja varaforseta og kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara.

Eftir borgarstjórnarfundinn hyggjast oddvitar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna boða til blaðamannafundar og greina frá málefnaáherslum sínum á kjörtímabilinu, að sögn Björns Inga Hrafnssonar, oddvita framsóknarmanna.

Samkvæmt dagskrá borgarstjórnarfundarins í dag verður kosið í 24 stjórnir, nefndir og ráð á vegum borgarinnar, auk þeirra embætta og ráða sem nefnd voru hér að ofan. Meðal annars verða kosnir fulltrúar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sf., fulltrúar í stjórn Faxaflóahafna sf. og fulltrúar í stjórn Strætó bs. Þá verða m.a. kosnir fulltrúar í íþrótta- og tómstundaráð, í menntaráð, í menningar- og ferðamálaráð, í velferðarráð og í ýmis hverfaráð, svo dæmi séu nefnd.

Flokkarnir tveir héldu hvor í sínu lagi fundi í gærkvöldi þar sem málefnaáherslurnar voru kynntar fyrir flokksfélögunum í Reykjavík. Að sögn Björns Inga og Vilhjálms gengu fundirnir vel og voru menn jákvæðir gagnvart hugmyndunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert